„Óskum eftir fallegum og tápmiklum stúlkum á háskólaaldri til að sitja fyrir á ljósmyndum og koma fram í myndböndum.“
Þannig hljóðaði auglýsing á vefsíðunni Craigslist sem fjöldi stúlkna í Kaliforníu brást við árið 2016. Erfitt er að lesa út úr orðalaginu að í raun og sann þyrftu svarendur að koma naktir fram og hafa kynferðislega tilburði í frammi fyrir framan mynda- og tökuvélarnar. Þegar á hólminn var komið var það þó akkúrat það sem aðstandendur auglýsingarinnar ætluðust til.
Konurnar sem tóku þátt í gjörningnum voru allar á aldrinum átján til 23 ára, þegar efnið var tekið upp, og kom reynslan illa við sumar þeirra, sem einangruðust í framhaldinu félagslega og íhuguðu jafnvel að stytta sér aldur. Fyrir vikið leituðu þær réttar síns og í vikunni komst dómstóll í San Diego að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið á konunum. Dæmdi dómarinn 22 konum bætur upp á samtals einn og hálfan milljarð króna.
Ekki nóg með að konurnar hefðu verið leiddar í gildru. Dómurinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að myndböndin, sem vefsíðan GirlsDoPorn framleiddi, hefðu verið sett á netið, þrátt fyrir að konurnar hefðu verið fullvissaðar um að það yrði ekki gert. Svæðisstöð CBS fullyrti fyrir helgina að sakborningarnir, þeirra á meðal Michael J. Pratt, framkvæmdastjóri GirlsDoPorn, og leikarinn Andre Garcia, ættu yfir höfði sér ákærur um kynlífsmansal. Samkvæmt sömu heimild situr Garcia inni ásamt fleirum en Pratt gengur laus.
Ef marka má fréttaveituna Courthouse var myndböndunum deilt á ákriftarvefsíðum GirlsDoPorn fáeinum vikum eftir að þau voru tekin upp og í framhaldinu á Pornhub, sem er ein vinsælasta síða þessarar gerðar í heiminum.
„Stefnendur hafa ekki enn þá bitið úr nálinni vegna málsins og hafa afleiðingarnar í mörgum tilvikum verið átakanlegar,“ segir í rökstuðningi dómarans, Kevins Enrights.
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.