Rigning og lækkandi hitastig hefur heldur bætt ástandið í Ástralíu en yfirvöld segja að það fari að hlýna að nýju á fimmtudag. Úrhellisrigning var í hluta Nýja Suður-Wales í gær og eins rigndi allt frá Sydney til Melbourne.
Yfirvöld segja að mikil hætta sé á að stórir eldar sem geisa í Victoria og í Nýja Suður-Wales muni ná saman. „Það er ekkert rými fyrir andvaraleysi,“ segir Gladys Berejiklian ríkisstjóri og sagði í morgun að dagurinn í dag fari í að tryggja að þeir sem hafi þurft að yfirgefa heimili sín séu á öruggum stað.
Þrátt fyrir úrkomu er mengunin hættulega mikil áfram. Meðal annars var Listasafni Ástralíu, The National Gallery of Australia, í höfuðborginni Canberra lokað í dag til að draga úr almannahættu vegna lélegra loftgæða. Eins er ríkisháskólinn í borginni, The Australian National University, lokaður vegna mengunar.
Veðurstofan varar við lélegu skyggni í Melbourne og í stórum hluta borgarinnar og nágrenni er skyggnið minna en 1 km.