Nokkuð hátt hlutfall þeirra sem eru líklegir til þess að kjósa Repúblikanaflokkinn í Bandaríkjunum væru tilbúnir til þess að kjósa börn Donalds Trump Bandaríkjaforseta í forsetaembættið árið 2024, fái þau möguleikann á því. Eða þannig er staðan hið minnsta í dag, samkvæmt skoðanakönnun sem bandaríski vefmiðillinn Axios lét framkvæma fyrir jól.
Þar kemur fram að 29% stuðningsmanna repúblikana sem tóku þátt í könnuninni gætu hugsað sér að kjósa Donald Trump yngri, son forsetans, sem forseta árið 2024 og 16% gætu hugsað sér að senda Ivönku Trump dóttur forsetans í Hvíta húsið. Bæði hafa þau verið áberandi síðan faðir þeirra sigraði í kosningunum árið 2016.
Mike Pence varaforseti nýtur mests stuðnings repúblikana í forsetastólinn árið 2024 á þessum tímapunkti, en 40% þeirra sem tóku þátt í könnunni segjast geta hugsað sér að kjósa hann árið 2024. Einnig nýtur Nikki Haley, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, mikils fylgis en 26% aðspurðra gætu hugsað sér að kjósa hana árið 2024.
Aðrir sem komast á blað á eftir þessum fjórum eru stjórnmálamenn á borð við Marco Rubio, Mike Pompeo, Greg Abbott og Rick Scott, meðal annarra. Í frétt Axios segir að Donald yngri hafi verið vinsælasti valmöguleikinn hjá ungum kjósendum, en hjá þeim eldri hafi Pence verið með afgerandi meirihluta.
Það er auðvitað langt þangað til árið 2024 og enn á eftir að koma í ljós hvort Donald Trump haldi áfram sem forseti að afstöðnum kosningum sem fram fara í Bandaríkjunum í haust.
En niðurstöðurnar benda til þess að margir kjósendur Repúblikanaflokksins geti vel hugsað sér að Trump-ættin haldi velli í Hvíta húsinu næstu kjörtímabil þrátt fyrir að Donald Trump eldri megi ekki sitja sem forseti Bandaríkjanna lengur en til 2024.