Réttarhöld hefjast yfir Weinstein

Weinstein gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann fundinn …
Weinstein gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur. AFP

Réttarhöld yfir kvikmyndamógúlnum fyrrverandi Harvey Weinstein hefjast formlega í New York í dag með vali á kviðdómurum. Samkvæmt fréttamiðlum vestra má gera ráð fyrir því að valið á kviðdómurunum 12 taki allt að tvær vikur, en að því loknu hefjast réttarhöldin fyrir alvöru.

Weinstein var einn alræmdasti kvikmyndaframleiðandi Hollywood, en hann kom m.a. að framleiðslu kvikmyndanna Shakespeare in Love, The King's Speech og Pulp Fiction, þar til veldi hans tók að hrynja í kjölfar þess að fjöldi kvenna steig fram og ásakaði hann um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldið árið 2017.

Weinstein gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur, en hann er ákærður í fimm liðum, meðal annars fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn tveimur ónafngreindum konum. Hann neitar sök.

Weinstein gaf sig fram við lögreglu í maí 2018 og var í kjölfarið ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn konunum tveimur en var látinn laus mánuði síðar gegn einnar milljónar dollara tryggingu. Ákærurnar voru sex í upphafi en dómari lét eina þeirra niður falla vegna ósamræmis í vitnisburði meints fórnarlambs. 

Þá var einnig um að ræða tvær ákærur vegna kynferðisbrota gegn leikkonunni Annabella Sciorra sem áttu sér stað snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Ekki er hægt að sækja til saka fyrir svo gömul brot í New York-ríki, en saksóknarar lögðu kæruna engu að síður formlega fram svo að mögulegt yrði að láta Sciorra bera vitni í réttarhöldunum.

Weinstein reyndi að fá réttarhöldin færð frá New York og sagði að mikil fjölmiðlaumfjöllun um málið myndi koma í veg fyrir að hann fengi réttláta málsmeðferð. Hann viðurkennir að hafa valdið miklum skaða en neitar að hafa gerst sekur um nokkurn glæp. Hann heldur því fram að öll hans samskipti við konurnar hafi verið með þeirra samþykki.

Ráðgert er að réttarhöldin taki um sex vikur eftir að kviðdómur hefur verið skipaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert