„Versta sumar sem ég hef upplifað hér“

Kjarreldar brenna víða í suðausturhluta Ástralíu.
Kjarreldar brenna víða í suðausturhluta Ástralíu. AFP

„Ég er búinn að vera búsettur í Ástralíu í ein 30 ár og þetta er versta sumar sem ég hef upplifað hér. Ástandið er hræðilegt,“ segir Þorvaldur Hreinsson, sem býr í bænum Eden á austurströnd Ástralíu, skammt frá verstu hamfarasvæðum kjarreldanna í Nýju Suður-Wales.

Sökum vinnu sinnar á dráttarbáti hefur Þorvaldur ekki verið í Eden undanfarna daga. Var hann staddur í Melbourne þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær. Hann hafði þá verið í daglegu sambandi við ástralska eiginkonu sína í Eden og vini sem þar búa. Í bænum búa um 3.500 manns.

Eldar allt í kringum bæinn

Þykkur reykjarmökkur liggur yfir Eden og að sögn Þorvaldar voru eldarnir aðeins í 2-3 kílómetra fjarlægð frá bæjarmörkunum. Var íbúum skipað að yfirgefa heimili sín og koma sér á öruggan stað. Hefur eiginkona Þorvaldar, ásamt vinafólki, dvalið um borð í dráttarbáti við höfnina í Eden síðustu tvo daga. Þorvaldur segir að um varúðarráðstöfun hafi verið að ræða, í gær hafi ástandið eitthvað lagast þar sem vindáttin breyttist úr suðvestri í norðaustur. Hitinn er eftir sem áður gríðarlegur, þannig komst hann í 49,6 gráður í Sydney.

„Eldurinn kom ekki inn í Eden og það hefur ekkert brunnið í bænum sjálfum, en það hafa orðið miklar skemmdir í sveitunum í kring. Það er of snemmt að segja til um eyðilegginguna því það er svo mikill svartur og þykkur reykur alls staðar,“ sagði Þorvaldur við Morgunblaðið.

Þorvaldur Hreinsson.
Þorvaldur Hreinsson. Ljósmynd/Aðsend

Enginn leitað til borgaraþjónustu

Enginn Íslendingur í Ástralíu hafði leitað til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í gær þegar Morgunblaðið hafði samband.

Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði jafnframt að utanríkisráðuneytið hefði ekki gefið út ferðaviðvörun vegna kjarreldanna í Ástralíu en sagði að slíkt væri sjaldan gert. Hann benti þó á viðvaranir utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Bretlands, en þau ríki gætu í flestum tilfellum gefið mun ítarlegri og betri viðvaranir, enda með meiri starfsemi í Ástralíu.

Hann sagði utanríkisráðuneytið þó vitanlega fylgjast grannt með málum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert