Bílastæðahús gæti hrunið í eldsvoða í Stafangri

Slökkviliðið í Rogalandi í Noregi berst nú við bruna í …
Slökkviliðið í Rogalandi í Noregi berst nú við bruna í bílastæðahúsi við flugvöllinn í Stafangri. Ljósmynd/Rogaland brann og redning

Það logar eldur í fleiri bílum í bílastæðahúsi við flugvöllinn í Stafangri í Noregi. Hluti bílastæðahússins hefur þegar hrunið til jarðar og óttast Nils Erik Haagenrud, slökkviliðsstjórinn í Rogalandi, að byggingin í heild sinni gæti hrunið. „Nú gerist það sem við vonuðum að myndi ekki gerast, eldurinn smitar milli hæða,“ hefur Aftenposten eftir Haagenrud.

Fram kemur í umfjöllun Verdens Gang að öll flugumferð um flugvöllinn hafi verið stöðvuð um óákveðin tíma. Þá sé mikill og þykkur svartur reykur á svæðinu og vinnur slökkviliðið hörðum höndum að því að ná tökum á brunanum. Talið er að fleiri bílar séu gereyðilagðir.

„Hluti af burðarvirkinu í bílastæðahúsinu, þar sem eldur logar í fleiri bílum, hefur gefið eftir. Hætta er á að húsið taki að hrynja og hafa reykkafarar því yfirgefið bílastæðahúsið,“ segir Victor Fenne-Jensen, aðgerðarstjóri slökkviliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert