Dæmdur morðingi barðist við árásarmann

AFP

Dæmdur morðingi segist ekki hafa hikað þegar hann reyndi að stöðva vopnaðan mann á London-brúnni í nóvember.  

Steven Gallant, sem er 42 ára gamall og afplánar dóm fyrir morð, lýsir því í viðtali hvernig hann tókst á við Usman Khan vopnaður stól. Gallant var með heimild til þess að sækja atburð ætlaðan föngum í sal við brúna. Hann afplánar 17 ára dóm fyrir að hafa myrt fyrrverandi slökkviliðsmann, Barrie Jackson, í Hull fyrir 15 árum.

Khan, sem stakk Saskia Jones og Jack Merritt til bana, var síðar skotinn til bana af lögreglu. Þrír til viðbótar særðust í árásinni sem hófst í Fishmongers-salnum 29. nóvember. Gallant, ásamt tveimur öðrum, reyndi að stöðva Khan en þetta er fyrsta viðtalið við Gallant um árásina.

Að sögn Gallant heyrði hann að eitthvað var ekki eins og það átti að vera og því fór hann og kannaði málið. „Ég sá sært fólk. Khan stóð í anddyrinu og hélt á tveimur stórum hnífum. Hann var augsýnilega hættulegur öllum þeim sem þarna voru og því hikaði ég ekki.“

Í frétt BBC kemur fram að Gallant var dæmdur ásamt félaga sínum James Gilligan fyrir að hafa ráðist á og drepið Jackson. Við réttarhöldin kom fram að Gallant taldi ranglega að Jackson hefði ráðist á unnustu hans. 

„Enginn á rétt á að taka líf annarrar manneskju og ég bið fjölskyldu fórnarlambs míns innilega afsökunar á þeim skaða sem ég vann,“ sagði Gallant við réttarhöldin.

Gallant, sem getur sótt um reynslulausn árið 2022, segir að hann hafi snúið við blaðinu í fangelsinu og að hann muni aldrei beita ofbeldi að nýju. Hann hafi lært að lesa og skrifa í fangelsinu og er að læra viðskiptafræði þar. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka