Dularfullur lungnabólgufaraldur í Kína

AFP

59 eru látnir úr dularfullri öndunarfærasýkingu í Kína og bendir margt til þess að nýr lungnabólgufaraldur sé hafinn, samkvæmt Guardian

Heilbrigðisyfirvöld í Kína hafa áhyggjur af því að sýkingin muni berast á milli fjölda fólks þegar kínverska nýárinu verður fagnað síðar í janúar. Þá er gjarnan mikið um að Kínverjar ferðist til sinna heimabæja og samgangur á milli fólks sé meiri en ella. 

Yfirvöld hafa mælst til þess að borgarar séu vakandi fyrir einkennum sýkingarinnar, hita, öndunarerfiðleikum og verkjum í líkama. Síðan á mánudag hefur líkamshiti allra þeirra sem tekið hafa lestir frá borginni Wuhan verið mældur.

Heilbrigðisyfirvöld í Wuhan voru fyrst til að greina frá tilvikum öndunarfærasýkingarinnar en þar voru 27 slík mál skráð í lok desember. Síðustu dánartölur sem gefnar voru út komu á sunnudag og gera þær ráð fyrir að 59 hafi látist. 

Smitast mögulega á milli manna og dýra

Yfirvöld í Kína segja að faraldsfræðingar hafi útilokað að um endurtekinn „Sars“-faraldur sé að ræða. Sá faraldur varð 800 manns í 37 löndum að bana á árunum 2002 og 2003. Hann fól í sér alvarlega bráða lungnabólgu. 

Yfirvöld í Wuhan segja enn óljóst hvort sýkingin smitist á milli manna og engar skýrar vísbendingar hafi komið upp sem bendi til þess. Rannsakendur hafa einnig útilokað að um fuglaflensu sé að ræða sem og MERS-öndunarfæraheilkennið sem kom upp í Mið-Austurlöndum árið 2012.

Einkenni hins dularfulla víruss eru hiti, öndunarerfiðleikar og sár innan á báðum lungum sem greina má með röntgenmyndatöku. 

Sumir þeirra sem smitast hafa unnu á sjávarréttamarkaði í Wuhan og bendir það til þess að mögulega smitist vírusinn á milli manna og dýra. Nokkrar verslanir á markaðnum seldu einnig villt dýr, þar á meðal fugla, dádýr og jarðhunda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka