Árásirnar verði þeim víti til varnaðar

Þessi loftmynd sýnir skemmdirnar sem urðu á Al-Asad-her­stöðinni í Írak …
Þessi loftmynd sýnir skemmdirnar sem urðu á Al-Asad-her­stöðinni í Írak í gær, þar sem fjöldi bandarískra hermanna er staðsettur, eftir flugskeytaárás Írans. AFP

Mark Esper, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, telur að dráp Bandaríkjanna á íranska hershöfðingjanum Qasem Soleimani í drónaárás í Bagdad, höfuðborg Íraks, verði Írönum víti til varnaðar.

„Ég held að aðgerðirnar gegn KH seint í desember og síðan aðgerðirnar gegn Soleimani, hafi orðið þeim víti til varnaðar,“ sagði Esper á blaðamannafundi og átti þar við Kataeb Hezbollah, írösku herdeildina sem er studd af Írönum.

„En við sjáum til. Tíminn mun leiða það í ljós,“ sagði hann.

Mark Esper.
Mark Esper. AFP

Esper greindi frá þessu eftir að Íran skaut eldflaugum á tvær bækistöðvar í Írak í kvöld þar sem bandarískar hersveitir eru staðsettar, í hefndarskyni vegna drápsins á Soleimani.

Hvorki íraskur né bandarískur hermaður lést í árásunum og fregnir herma að Bandaríkin hafi vitað af árásunum fyrir fram.

Fyrr í kvöld sagði Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti frá því í ræðu sem var sjónvarpað að banda­ríska þjóðin ætti að vera þakk­lát vegna þess að eng­inn hermaður féll í árás Írana á Al-Asad-her­stöðina. 

Íranar syrgja hershöfðingjann Qasem Soleimani í heimabæ hans Kerman.
Íranar syrgja hershöfðingjann Qasem Soleimani í heimabæ hans Kerman. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert