Eyddu myndefninu fyrir mistök

Fangelsið í New York þar sem Epstein var í haldi …
Fangelsið í New York þar sem Epstein var í haldi og fannst síðar látinn í ágúst í fyrra. AFP

Banda­rísk­ir sak­sókn­ar­ar segja að mynd­efni úr eft­ir­lis­mynda­vél­um sem sýna fyrstu meintu sjálfs­vígstilraun kyn­ferðisaf­brota­manns­ins Jef­frey Ep­stein hafi verið eytt fyr­ir mis­tök.

Þeir segja að fang­elsið hafi varðveitt mynd­efni úr öðrum fanga­klefa en ekki upp­tök­ur úr klefa Ep­steins. 

Ep­stein tók eigið líf í ág­úst í fyrra er hann beið eft­ir að réttað yrði í máli hans, en hann var ákærður fyr­ir kyn­ferðisaf­brot. Ep­stein neitaði að hafa brotið kyn­ferðis­lega gegn ung­um stúlk­um, en sum­ar þeirra voru aðeins 14 ára gaml­ar, að því er seg­ir á vef BBC. 

Í júlí deildi Ep­stein klefa með öðrum manni, Nicholas Tarta­gli­o­ne, sem er fyrr­ver­andi lög­reglumaður í New York. Hann var ákærður fyr­ir morð í öðru ótengdu máli.

Þann 25. júlí fannst Ep­stein meðvit­und­ar­lít­ill í klef­an­um með áverka á hálsi. Í kjöl­farið var ákveðið að vakta hann sér­stak­lega þar sem menn óttuðust að hann myndi reyna að fremja sjálfs­víg.

Jeffrey Epstein.
Jef­frey Ep­stein. AFP

Nokkru seinna var hann færður í ann­an klefa þar sem hann fannst svo lát­inn 10. ág­úst. Tveir fanga­verðir hafa verið sakaðir um að fylgj­ast ekki með Ep­stein á þessu tíma­bili og einnig sakaðir um að falsa skjöl sem eiga að sýna fram á að þeir hafi í raun verið að fylgj­ast með hon­um. 

Marg­ir hafa spurt spurn­inga varðandi mynd­efnið sem var tekið upp í júlí. Í fyrstu var talið að það hefði týnst og síðan var sagt að starfs­fólk fang­els­is­ins hefði fundið upp­tök­urn­ar. 

Aðstoðarrík­is­sak­sókn­ar­arn­ir Ja­son Swer­gold og Maurene Comey segja í bréfi að upp­tak­an sem hafi varðveist sýni rétta tíma- og dag­setn­ingu en sýni annað svæði í fang­els­inu. 

„Upp­tak­an sem óskað var eft­ir er ekki leng­ur til í kerf­inu sem af­rit, og það hef­ur verið þannig frá því að minnsta kosti í ág­úst 2019 vegna tækni­legra mistaka,“ seg­ir í bréfi sak­sókn­ar­anna.

Lögmaður Tarta­gli­o­ne hafði einnig óskað eft­ir að fá um­rædda upp­töku í hend­ur. Hann hélt því fram að hún myndi sýna fram á að hegðun og fram­ferði Tarta­gli­o­ne hefði verið til mik­ill­ar fyr­ir­mynd­ar, og að mögu­lega hefði hann komið Ep­stein til hjálp­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka