Eyddu myndefninu fyrir mistök

Fangelsið í New York þar sem Epstein var í haldi …
Fangelsið í New York þar sem Epstein var í haldi og fannst síðar látinn í ágúst í fyrra. AFP

Bandarískir saksóknarar segja að myndefni úr eftirlismyndavélum sem sýna fyrstu meintu sjálfsvígstilraun kynferðisafbrotamannsins Jeffrey Epstein hafi verið eytt fyrir mistök.

Þeir segja að fangelsið hafi varðveitt myndefni úr öðrum fangaklefa en ekki upptökur úr klefa Epsteins. 

Epstein tók eigið líf í ágúst í fyrra er hann beið eftir að réttað yrði í máli hans, en hann var ákærður fyrir kynferðisafbrot. Epstein neitaði að hafa brotið kynferðislega gegn ungum stúlkum, en sumar þeirra voru aðeins 14 ára gamlar, að því er segir á vef BBC. 

Í júlí deildi Epstein klefa með öðrum manni, Nicholas Tartaglione, sem er fyrrverandi lögreglumaður í New York. Hann var ákærður fyrir morð í öðru ótengdu máli.

Þann 25. júlí fannst Epstein meðvitundarlítill í klefanum með áverka á hálsi. Í kjölfarið var ákveðið að vakta hann sérstaklega þar sem menn óttuðust að hann myndi reyna að fremja sjálfsvíg.

Jeffrey Epstein.
Jeffrey Epstein. AFP

Nokkru seinna var hann færður í annan klefa þar sem hann fannst svo látinn 10. ágúst. Tveir fangaverðir hafa verið sakaðir um að fylgjast ekki með Epstein á þessu tímabili og einnig sakaðir um að falsa skjöl sem eiga að sýna fram á að þeir hafi í raun verið að fylgjast með honum. 

Margir hafa spurt spurninga varðandi myndefnið sem var tekið upp í júlí. Í fyrstu var talið að það hefði týnst og síðan var sagt að starfsfólk fangelsisins hefði fundið upptökurnar. 

Aðstoðarríkissaksóknararnir Jason Swergold og Maurene Comey segja í bréfi að upptakan sem hafi varðveist sýni rétta tíma- og dagsetningu en sýni annað svæði í fangelsinu. 

„Upptakan sem óskað var eftir er ekki lengur til í kerfinu sem afrit, og það hefur verið þannig frá því að minnsta kosti í ágúst 2019 vegna tæknilegra mistaka,“ segir í bréfi saksóknaranna.

Lögmaður Tartaglione hafði einnig óskað eftir að fá umrædda upptöku í hendur. Hann hélt því fram að hún myndi sýna fram á að hegðun og framferði Tartaglione hefði verið til mikillar fyrirmyndar, og að mögulega hefði hann komið Epstein til hjálpar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert