Hugðust ráðast á fleiri bandarísk skotmörk

Hátt settur íranskur herforingi segir að það hafi staðið til að gera mun fleiri árásir á bandarísk skotmörk í Írak ef Bandaríkjamenn hefðu látið sverfa til stáls í kjölfar flugskeytaárása sem Íranar gerðu á tvær herstöðvar í fyrradag. 

Hershöfðinginn Amir Ali Hajizadeh segir í samtali við íranska ríkissjónvarpið að eina viðeigandi leiðin til að hefna fyrir drápið á hershöfðingjanum Qasem Soleimani, sem féll í drónaárás Bandaríkjahers í Bagdad, hefði verið að hrekja bandarískar hersveitir á brott frá Miðausturlöndum.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í sjónvarpsávarpi í gær að gripið yrði til frekari refsiaðgerða og efnhagsþvingana gagnvart Íran, en hann bætti við að Íranar hefðu ákveðið að slíðra sverðin eftir árásirnar. Forsetinn talaði ekkert um frekari hernaðaraðgerðir. 

Gervihnattarmynd sem er sögð sýna skemmdir á bandarískri herstöð sem …
Gervihnattarmynd sem er sögð sýna skemmdir á bandarískri herstöð sem urðu í árás Írana í Ain al-Asad, sem er í vesturhluta Íraks. AFP

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, sagði í samtali við Fox News í dag, að Trump hefði fyrirskipað að menn haldi vöku sinni. 

Pence sagði í samtali við CBS að bandarísk yfirvöld hefðu fengið jákvæðar upplýsingar um að Íran væri að senda skilaboð til bandamanna sinna um að ráðast ekki á bandarísk skotmörk. 

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings mun í dag greiða atkvæði um ályktun sem ætlað er að þvinga Trump til að láta af frekari hernaðaraðgerðum gegn Íran, nema Bandaríkjaþing gefi forsetanum grænt ljós. 

Trump sagði í gær að Íranar hefðu bakkað og hyggist …
Trump sagði í gær að Íranar hefðu bakkað og hyggist ekki ætla að gera frekari árásir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert