Flugviskubitið virðist plaga Svía

Um er að ræða mjög sérstaka þróun fyrir Evrópuland.
Um er að ræða mjög sérstaka þróun fyrir Evrópuland. AFP

Fjöldi þeirra sem ferðuðust um flugvelli Svíþjóðar á síðasta ári minnkaði um 4% á milli ára, og ef aðeins er litið til innanlandsflugs fækkaði farþegum um 9%.

Um er að ræða mjög sérstaka þróun fyrir Evrópuland, ef marka má frétt BBC af málinu. Flugviskubit, svokallað samviskubit yfir umhverfisáhrifum flugferða, er talið meðal ástæðna fyrir fækkuninni.

Um 40 milljónir manns fóru um flugvelli Svíþjóðar árið 2019 til samanburðar við 42 milljónir árið á undan.

Talsmaður Swedavia, rekstraraðila sænsku flugvallanna, segir ýmislegt spila inn í fækkunina. Nefnir hann meðal annars flugskatta, áhyggjur af efnahagslífinu, veikingu sænsku krónunnar og umhverfisáhrif.

Flugviskubits, eða „flygskam“ upp á sænska tungu, varð fyrst vart í umræðunni árið 2017 þegar sænski tónlistarmaðurinn Staffan Lingberg hét því að hætta flugferðum. Þá má gera ráð fyrir því að sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg, sem vakið hefur heimsathygli, hafi einhver áhrif á ferðahegðun landa sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert