Samtökin sem kenna sig við Ríki íslams hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna vígs íranska hershöfðingjans Qasem Soleimani, þar sem vígi hans er fagnað og því líst sem „guðlegu inngripi“ sem komi jíhadistum vel.
Ekkert er minnst á Bandaríkin í yfirlýsingu samtakanna, en Soleimani lést í loftárás Bandaríkjahers, fyrirskipaðri af Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Árás Bandaríkjanna hefur haft víðtækar afleiðingar, en í kjölfarið hafa Íranar gert loftárásir á tvær bandarískar herstöðvar, auk þess sem talið er að þeir hafi grandað úkraínskri farþegaflugvél í Teheran-héraði fyrir mistök.
Afleiðingar vígs Soleimani hafa þó ekki síst haft áhrif á stríð Bandaríkjanna gegn Ríki íslams í Írak, en Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa tilkynnt að nú verði þeir að einbeita sér að því að verja sjálfa sig, en það þýðir að ekki verður barist gegn Ríki íslams á meðan Bandaríkin og Íran útkljá málin sín á milli.