Talið er að tveir gróðureldar sem loga í Ástralíu eigi eftir að ná saman síðar í dag og mynda svokallaðan risaeld, að því er segir í viðvörun frá yfirvöldum. Um er að ræða elda sem loga í tveimur nágrannaríkjum, Nýja Suður-Wales (NSW) og Victoria.
Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, varar við því að dagurinn í dag geti reynst þjóðinni þungur í skauti, einkum í austurhluta landsins, vegna hitabylgju, hvassviðris og eldinga. Í Suður-Ástralíu er einnig varað við gríðarlegri hættu á Kengúrueyju.
Talsmaður slökkviliðs NSW í dreifbýli segir í samtali við fréttamann BBC að allt bendi til þess að eldarnir tveir nái saman á næstu klukkustundum en þeir geisa báðir stjórnlausir. Talið er að þeir nái saman um klukkan 9 að íslenskum tíma, samkvæmt frétt BBC.
Yfir eitt hundrað gróðureldar brenna nú í NSW og hættan er svipuð í Victoria.
Á sama tíma og ástralski herinn er að bjarga fólki sem er lokað inni vegna skógareldanna fékk hann nýja áskorun í dag — að sendast með bjór á sveitakrá sem var að verða uppiskroppa með ölbirgðir.
Yfir eitt þúsund manns hafa verið fluttir á brott frá bænum Mallacoota en fjölskyldur þar hafa verið innilokaðar allt frá gamlárskvöldi. AFP-fréttastofan fékk í dag staðfest að meðal þeirra vista sem verið er að flytja til fólks á þessum slóðum er bjór fyrir krána en tekið fram að hann sé ekki að taka pláss frá öðrum nauðsynjum um borð.
Þúsundir slökkviliðsmanna víðs vegar um suðausturhluta Ástralíu tóku í dag þátt í slökkvistarfinu en þar sem myrkur er skollið á er ekki hægt að fljúga lengur yfir eldana. Hitinn er víða í NSW og Victoria kominn yfir 40 gráður og mjög hvasst.