Lögreglan í Espoo, nágrannaborg finnsku höfuðborgarinnar Helsinki, brá skjótt við þegar tilkynning barst um hóp grímuklæddra manna að ganga í skrokk á vörubílstjóra við lagerhúsnæði innflutningsfyrirtækisins Algol um hábjartan dag 16. desember.
Þegar lögregla kom á vettvang voru árásarmennirnir á bak og burt en laganna vörðum þótti ástæða til að athuga innihald 20 feta vörugáms á tengivagni vörubifreiðarinnar sem grunur lék á að árásarmennirnir hefðu ætlað sér að komast í. Gámurinn hafði komið til Finnlands frá Brasilíu með viðdvöl í hollenskri höfn og reyndist innihalda mesta magn kókaíns sem finnskir löggæsluaðilar hafa fundið á einu bretti, 150 kílógrömm.
Í kjölfarið var leit hafin að árásarmönnunum og náðust þeir niðri við höfn þar sem þeir reyndu að lauma sér um borð í ferju á leið til Stokkhólms í Svíþjóð. Reyndist þar um fimmmenninga að ræða á aldrinum 19 til 30 ára, einn búsettan í Svíþjóð, fjóra í Danmörku. Tveir mannanna eru af sómölsku bergi brotnir.
Mennirnir hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan þeir voru handteknir, grunaðir um tilraun til ráns og stórfellt fíkniefnabrot.
Lauri Hakkala, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Vestur-Uusimaa, sagði finnska dagblaðinu Helsingin Sanomat, sem fyrst greindi frá málinu, að fimmmenningarnir hefðu komið til Finnlands hver í sínu lagi, á tveimur bifreiðum og með tveimur ferjum frá Stokkhólmi.
„Þeir skiptu liði til að komast yfir landamærin án þess að vekja á sér athygli,“ sagði Hakkala. Hann sagði lögreglu nú vinna að því í samvinnu við dönsk, sænsk og hollensk lögregluyfirvöld, auk aðkomu Evrópulögreglunnar Europol og Eurojust, Evrópsku réttaraðstoðarinnar, að komast á snoðir um og handtaka fleiri aðila málsins.
„Þessir fimm komu hingað til að framkvæma ákveðið verkefni, en við ætlum okkur að komast að því hver setti þeim það verkefni fyrir og hvar hann er niður kominn,“ sagði Hakkala að lokum.
Helsinki Times
Helsinki Times II
Finnska ríkisútvarpið YLE (á ensku)
Helsingin Sanomat (fyrir þá sem lesa finnsku)