Brottrekinn forstjóri Boeing fær milljarða

Muilenburg var rekinn úr starfi forstjóra fyrir að hafa ekki …
Muilenburg var rekinn úr starfi forstjóra fyrir að hafa ekki staðið sig í stykkinu eftir kyrrsetningu 737 MAX-vélanna. En seðlar þurrka tárin. AFP

Dennis Muilenburg, sem rekinn var úr starfi forstjóra Boeing á dögunum, mun yfirgefa félagið með um 62,2 milljónir dala, jafnvirði um 7,6 milljarða króna. New York Times greinir frá. Þegar hafði verið greint frá því að Muilenburg hefði afsalað sér rétti sínum til hlutabréfa að verðmæti 14,6 milljónir dala, sem hann átti rétt á við starfslok. 

Önnur hlutabréf og lífeyrir, sem hann á rétt á samkvæmt samkomulagi, nemur hins vegar um 62,2 milljónum króna, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá Boeing.

„Við þökkum Dennis fyrir nærri 35 ára þjónustu við Boeing-fyrirtækið,“ segir í yfirlýsingunni. „Við starfslok fær Dennis þau fríðindi sem hann átti rétt á samkvæmt samkomulagi. Hins vegar fær hann engan bónus fyrir árið 2019.“

Muilenburg var látinn taka poka sinn á Þorláksmessu, stuttu eftir að tilkynnt var að fyrirtækið hefði stöðvað framleiðslu á Boeing 737 MAX-vélunum, sem hafa verið kyrrsettar frá því í mars í fyrra. Sagði í til­kynn­ingu frá Boeing að fyr­ir­tækið þyrfti að byggja upp traust á ný og laga sam­band sitt við eft­ir­litsaðila, viðskipta­vini og alla aðra hagsmunaaðila.

Nýr forstjóri félagsins er David Calhoun, en greint hefur verið frá því að hann hljóti 7 milljóna dala bónus, jafnvirði um 860 milljóna króna, takist honum að koma 737 MAX-vélunum aftur í loftið.

Bætist það ofan á grunnlaun hans, 1,4 milljónir dala á ári, mögulegan bónus fyrir ársmarkmið upp á 2,5 milljónir dala, mögulegan bónus fyrir langtímamarkmið upp á 7,5 milljónir dala, og hlutabréf upp á 10 milljónir dala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka