Stjórnvöld í héraðinu Kerala í suðurhluta Indlands hafa eyðilagt tvær lúxusblokkir sem byggðar voru í trássi við umhverfisreglur.
Samtals verða 343 íbúðir eyðilagðar, en íbúafjöldi þeirra er um tvö þúsund. Núna um helgina, í fyrstu lotu, voru um 90 íbúðir eyðilagðar. Fjöldi íbúa fylgdist með þegar byggingarnar voru sprengdar fyrr í dag.
Hæstiréttur Indlands heimilaði eyðileggingu bygginganna í fyrra eftir að nefnd hafði komist að því að þær hefðu verið byggðar ólöglega og í andstöðu við umhverfisreglur sem gilda um strandsvæði.
Umhverfisstofnun strandsvæða Kerala-héraðsins, sem var stofnuð til að koma í veg fyrir skemmdir á strandsvæðum, taldi að skipulagsyfirvöld hefðu gefið grænt ljós á framkvæmdirnar á sínum tíma án heimildar. Höfðu íbúar flutt inn og þóttu þær mjög fínar. Þannig greindi einn bankastjórnandi frá að hann hefði greitt 70 þúsund dali fyrir tæplega 200 fermetra íbúð sína, en það nemur um 8,4 milljónum íslenskra króna. Þá hafði önnur íbúð verið seld fyrir 176 þúsund dali í fyrra.
Umhverfisstofnunin tók málið fyrir dómstóla og í maí á síðasta ári komst hæstiréttur landsins að því að byggingarnar hefðu verið byggðar í óleyfi. Hluti íbúa íbúðanna neitaði upphaflega að yfirgefa þær, en eftir að skrúfað var fyrir vatn og rafmagn fluttu þeir síðustu í burtu.
Héraðið mun greiða íbúum 35 þúsund dali í skaðabætur vegna flutninganna.