„Farið að líkjast öskufallinu úr Eyjafjallajökli“

Svæðið við Taal er vinsælt meðal ferðamanna. Öskufallið þar er …
Svæðið við Taal er vinsælt meðal ferðamanna. Öskufallið þar er gríðarlega mikið og hættulegt. AFP

„Það voru engin skilaboð og það veit enginn neitt. Við vorum stödd hérna úti á flugvelli í Manila, áttum bókað flug klukkan átta í kvöld og vorum tveimur tímum frá því að sleppa af eyjunni.“

Þetta segir Einar Magnús Nielsen, sem staddur er í Manila í Filippseyjum ásamt dóttur sinni Evu Marín Einarsdóttur Nielsen, í samtali við mbl.is. Feðginin hafa verið á ferðalagi um Filippseyjar undanfarið en því ferðalagi átti að ljúka með heimför fyrr í dag. Einar og Eva voru komin út á flugvöll í Manila, voru búin að skila af sér töskum og biðu eftir fluginu sínu sem átti að fara um hádegisbil í dag (klukkan átta að staðartíma í Manila) þegar flugi þeirra var aflýst.

Ástæðan var sú að eitt virkasta eldfjall Filippseyja, Taal, sem staðsett er í um 65 kílómetra fjarlægð frá Manila, byrjaði að spúa öskuskýi langt upp í himininn. Yfirvöld gripu fljótlega til varúðarráðstafana sem fólu meðal annars í sér að öllu áætlunarflugi var aflýst.

Voru heppin að finna hótel

Einar og Eva fóru beint af flugvellinum að leita sér að hóteli til að gista á yfir nóttina að minnsta kosti og voru heppin að finna eitt slíkt í um það bil klukkustundar fjarlægð frá flugvellinum. Á leiðinni frá flugvellinum sáu þau að askan var byrjuð að leggjast yfir borgina og bíla sem margir voru orðnir öskugráir á litinn.

„Við vorum heppin að komasat á hótel en það verður ekki sagt um alla sem voru á flugvellinum því hann var alveg stappfullur af fólki,“ segir Einar og bætir við að þau hafi ekki hugmynd um hvenær áætlunarflug hefjist aftur og hvenær þau komist aftur til Íslands.

„Miðað við það sem ég sá í fréttum hérna á hótelinu þá verður þetta ekkert skoðað fyrr en í hádeginu á morgun. Þetta er svo svakalegt magn af ösku sem er að koma upp að ég á ekki von á því að það verði flogið á morgun og ég efast um að við komumst heim fyrr en í lok vikunnar. Ég er alla vega búinn að láta þau á hótelinu vita að við verðum hérna alveg þangað til við fáum flug heim.“

Öskuskýið er gríðarlegt að stærð og líklegt þykir að það …
Öskuskýið er gríðarlegt að stærð og líklegt þykir að það trufli flugsamgöngur í einhverja daga hið minnsta. AFP

Lítur ekki vel út fyrir íbúa í nágrenni við eldfjallið

Töluvert hefur verið um jarðskjálfta á svæðinu í grennd við Taal og hafa yfirvöld varað við því að hættulegt eldgos geti hafist á hvaða augnabliki sem er á næstu dögum og vikum. Tvö þúsund manns að minnsta kosti hafa þurft að yfirgefa heimili sín og líklegt er að sú tala hækki enn meira á næstu klukkustundum enda er hættulegt að anda að sér öskunni. Töluverður fjöldi fólks býr á svæðinu nálægt Taal auk þess sen það er mjög vinsælt meðal ferðamanna.

„Þeir sögðu í fréttunum áðan að nálægt upptökunum sé öskufallið gríðarlega mikið. Þetta er svo mikið að þetta er farið að líkjast öskufallinu úr Eyjafjallajökli og þetta lítur ekki vel út fyrir íbúa í nágrenni við eldfjallið,“ bætir Einar við að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert