Rúmlega 700 manns komu til athafnar í íþróttahöllinni Haukelandshallen í Bergen í Noregi í morgun til að leggja til hinstu hvílu 41 árs gamla móður og þrjár dætur hennar, sjö, níu og 14 ára, sem létust allar í kjölfar eldsvoða í parhúsi í Ytrebygda þar í borg snemma laugardagsmorgunsins 4. janúar.
Níu ára gamla stúlkan lést að kvöldi þess sama dags en móðirin og elsta systirin aðfaranótt þriðjudags í síðustu viku. Það var svo síðdegis þann sama dag sem yngsta systirin, sjö ára gömul, lést af sárum sínum á Haukeland-sjúkrahúsinu, skömmu eftir að mbl.is fjallaði um brunann og fyrstu þrjú dauðsföllin.
Þar með er eldsvoðinn 4. janúar orðinn sá mannskæðasti í Bergen síðan árið 1979 en vegna alvarleika málsins óskaði staðarlögreglan eftir aðstoð frá norsku rannsóknarlögreglunni Kripos við rannsókn á eldsupptökum. Faðir og 18 ára gamall sonur hans komust af eigin rammleik út úr hinum hluta parhússins en reykkafarar sóttu mæðgurnar fjórar inn í brennandi íbúð þeirra. Kripos hefur lokið rannsókn á vettvangi en hefur enn ekkert látið uppi um eldsupptök.
Borgarbúar eru í sorg eftir harmleikinn og lögðu mörg hundruð manns leið sína á Haukeland-sjúkrahúsið á meðan mæðgurnar lágu þar milli heims og helju. Hluti mötuneytis sjúkrahússins var gerður að aðstöðu fyrir gestina auk þess sem bænasamkoma var haldin á sunnudagskvöldið fyrir rúmri viku fyrir vini og ættingja. Þá heimsóttu áfallahjálparteymi grunnskóla stúlknanna, Aurdalslia- og Ytrebygda-skólana, og ræddu við samnemendur þeirra.
Margir tóku til máls við athöfnina í íþróttahöllinni í morgun og minntust mæðgnanna. „Stúlkurnar voru sólargeislar. Þær bjuggu yfir útgeislun og áru sem nánast voru áþreifanlegar og voru þeim eiginleikum gæddar að geta látið öllum líða vel í nærveru þeirra,“ sagði Terje Tviberg, settur skólastjóri Aurdalslia-skólans, í ávarpi sínu en auk hans tóku margir samnemendur elstu systurinnar, úr þeim sama skóla, til máls. Allir nemendur beggja skólanna fengu frí frá kennslu til að sækja athöfnina.
Mæðgurnar látnu voru frá Sýrlandi og komu til Bergen árið 2017. Fimmtán ára gamall sonur var ekki heima þegar eldurinn kviknaði.
„Þetta er skelfilegur harmleikur sem snertir allt samfélagið hér í borginni,“ sagði Beate Husa, borgarfulltrúi heilbrigðismála í Bergen, við norska ríkisútvarpið NRK.
Nemendur í Ytrebygda-skólanum tóku sig til og blésu til fjársöfnunar til styrktar þeim sem eftir lifa af fjölskyldunni, bróður konunnar og sonum hennar sem eru fleiri en einn, en aðeins sá yngsti bjó með systrum sínum og móður. Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 4.700 manns látið samtals 1.152.000 norskar krónur af hendi rakna, jafnvirði tæplega 16 milljóna íslenskra króna.