Fyrsta smitið greinist utan Kína

Lögregla utan við matarmarkaðinn í Wuhan þar sem fólkið er …
Lögregla utan við matarmarkaðinn í Wuhan þar sem fólkið er talið hafa smitast. AFP

Lungnabólga af völdum nýrrar kórónaveiru hefur greinst utan Kína, í ferðalangi í Taílandi. Um var að ræða smit í kínverskri konu sem var stöðvuð á flugvellinum í Bangkok við komuna frá Wuhan.

Tugir Kínverja hafa greinst með afbrigðilega lungnabólgu í borginni Wuhan síðan í lok desember og hafa Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in (WHO) og Sótt­varna­stofn­un Evr­ópu­sam­bands­ins (ECDC) meðal annars vakið athygli á hópsýkingunni. Einn er látinn af völdum sýkingarinnar.

Allir sýktu virðast hafa smitast á matarmarkaði í Wuhan, en ekkert smit á milli manna hefur verið staðfest.

Á vef embættis landlæknis segir að svo virðist sem lungna­bólg­an sé or­sökuð af nýrri kór­óna­veiru sem sé frá­brugðin þeim kór­óna­veir­um sem or­sökuðu SARS (Sev­ere acu­te respiratory syndrome) í Suður-Kína (og fleiri lönd­um) á ár­un­um 2002-2003 og MERS (Middle East respiratory syndrome) sem greinst hafi í Mið-Aust­ur­lönd­um frá 2012. Báðar þess­ar sýk­ing­ar hafa valdið dauða hjá mörg hundruð ein­stak­ling­um. Ekk­ert bólu­efni er til við sýk­ing­unni og eng­in veiru­lyf að sögn sótt­varna­lækn­is. 

„Að svo stöddu er ekki ástæða til neinna sér­tækra aðgerða og ekki ástæða til ferðatak­mark­ana til Suður-Kína.

Ein­stak­ling­ar sem koma hingað til lands frá Wu­h­an-borg í Kína með kvef, hósta og hita eru beðnir um að upp­lýsa heil­brigðis­starfs­menn um sín­ar ferðir. Ekki er þörf á að all­ir ein­stak­ling­ar leiti til heil­brigðis­kerf­is­ins sem ný­lega hafa verið í Kína og fá kvef eða hósta. Ein­ung­is þeir sem veikj­ast al­var­lega eða sem áhyggj­ur hafa af sín­um veik­ind­um leiti til heil­brigðis­kerf­is­ins. Upp­lýs­ing­um um veik­ind­in í Kína hef­ur verið dreift til heilsu­gæsl­unn­ar og til smit­sjúk­dóma­lækna,“ seg­ir í til­kynn­ing­u á vef landlæknis.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert