Þúsundir kvenna mótmæltu forsetanum

Staður konunnar er í Hvíta húsinu.
Staður konunnar er í Hvíta húsinu. AFP

Þúsundir  kvenna tóku þátt í mótmælagöngu gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta í Washington í dag. Mótmælendur segjast hrylla sig við tilhugsunina að Trump verði endurkjörinn í forsetakosningunum í nóvember. 

Árið 2017 söfnuðust yfir þrjár milljónir Bandaríkjamanna saman daginn eftir að Trump var settur í embætti í janúar það ár og mótmæltu forsetanum. Undanfarin ár hefur verið mótmælt þennan sama dag, en sífellt færri mótmælendur taka þó þátt. 

Nokkur þúsund mótmælendur söfnuðust saman í Washington auk minni hópa í New York og öðrum borgum. Í Washington snjóaði og kuldi var mikill, en svo virðist sem það hafi ekki komið í veg fyrir að mótmælendur létu í ljós skoðun sína. Fjölmargar báru bleik höfuðföt sem tákn um andstöðu gegn hegðun Trumps í garð kvenna. 

„Við vissum öll að Trump yrði hræðilegur og hann hefur verið verri en við áttum okkur á,“ sagði Kim Elliot, 40 ára gamall Washingtonbúi sem tók þátt í mótmælunum ásamt sjö ára dóttur sinni.

Margir voru með bleikar húfur.
Margir voru með bleikar húfur. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert