Kínverjar tilkynntu fyrr í dag um 17 ný tilfelli hins dularfulla lungnasjúkdóms sem þegar hefur dregið tvo til dauða. Eins og mbl.is hefur þegar greint frá er sjúkdómurinn sagður líkjast SARS-vírusnum sem olli bana tæplega 650 manns í Kína og Hong Kong á árunum 2002-2003.
Af hinum 17 nýju tilfellum eru þrjú sögð mjög alvarleg. Tala hinna sýktu er þar með komin upp í 62, í borginni Wuhan, og flokkast átta tilfellanna sem mjög alvarleg. 19 hafa náð sér og verið útskrifaðir af spítala, og aðrir eru í einangrun og hljóta meðferð.