Ákæran á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta til embættismissis „er hættuleg árás á rétt bandarísku þjóðarinnar til að velja sér forseta og móðgun við stjórnarskrána“. Þetta er meðal þess sem fram kemur í málsvörn Trump sem birt hefur verið á vef Hvíta hússins.
Þetta er í fyrsta skipti sem lögfræðiteymi forsetans opinberar málsvörnina. Pat Cipollone, lögfræðilegur ráðgjafi Hvíta hússins, fer fyrir lögfræðingateyminu sem er einnig skipað Jay Sekulow, einkalögmanni Trump, Alan Dershowitz, sem þekktastur er fyrir að verja ýmsa fræga einstaklinga í gegnum tíðina, og Kenneth Starr, en hann er þekktastur fyrir að hafa verið saksóknari í ákæru Bandaríkjaþings á hendur Bill Clinton Bandaríkjaforseta árið 1998.
Trump er sakaður um að hafa látið frysta neyðaraðstoð til Úkraínu til að reyna að þrýsta á stjórnvöld þar í landi til að rannsaka demókratann Joe Biden og son hans. Joe Biden býður sig fram sem forsetaefni Demókrataflokksins og verður mögulega andstæðingur Trump í komandi forsetakosningum.
„Þetta er ósvífin og ólögmæt tilraun til að snúa við niðurstöðu forsetakosninganna 2016 og til að hafa áhrif á kosningarnar í ár,“ segir einnig í málsvörn forsetans.
Trump er sömuleiðis ákærður fyrir að hindra framgang rannsóknar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem ákærði forsetann. Í málsvörninni segir að ákæran sé ekkert nema pólitískt útspil demókrata í fulltrúadeildinni sem hafi hunsað öll fordæmi um meðferð kærumála í þinginu. Trump neitar því að hafa gerst sekur um glæpi eða lögbrot og segir þingið hafa ákveðið að kæra hann eftir ólöglega rannsókn.
Í málsvörninni er farið fram á að báðum kæruliðum verði hafnað af þinginu, ekki síst til að koma í veg fyrir að ákæru til embættismissis verði beitt sem pólitísku vopni í bandarískum stjórnmálum og verði að venju.
Ákæran var send til öldungadeildar þingsins á miðvikudag sem tekur hana fyrir á þriðjudag. Repúblikanar eru með meirihluta í efri deild þingsins og ef þeir eru hliðhollir forsetanum gæti Trump verið sýknaður innan tveggja vikna.