„Gögn sem hefur verið lekið sýna fram á hvernig ríkasta kona Afríku auðgaðist með því að arðræna eigið land, og í gegnum spillingu.“ Svona hefst umfangsmikil umfjöllun BBC um hina angólsku Isabel dos Santos, sem sögð er hafa fengið aðgang að ábatasömum samningum um land, olíu, demanta og fjarskipti þegar faðir hennar, José Eduardo dos Santos, var forseti Angóla.
Isabel dos Santos er í dag búsett í Bretlandi og á eignir í miðborg Lundúna. Yfirvöld í Angóla hafa mál hennar til rannsóknar vegna spillingar og hafa eignir hennar þar í landi verið frystar.
Eins og áður segir benda gögnin, um 700.000 skjöl, til þess að dos Santos hafi auðgast á vafasaman hátt, en eitt dæmi er samningur sem gerður var í gegnum hið angólska ríkisrekna olíufyrirtæki Sonangol.
Faðir Dos Santos, forsetinn, hafði hafði gert dóttur sína að stjóra Sonangol árið 2016, en stuttu eftir að hann lét af störfum sem forseti 2017 var Dos Santos rekin. Í umræddum gögnum kemur fram að Dos Santos hafi, í þann mund sem hún yfirgaf Sonangol, samþykkt um 58 milljóna dollara greiðslur til ráðgjafafyrirtækis í Dubai. Sagðist hún engin tengsl hafa við fyrirtækið, en gögnin benda til að fyrirtækið hafi verið í eigu vinar hennar.