Repúblikanar og demókratar tókust harkalega á í öldungadeild Bandaríkjaþings í gær og fram á nótt um fyrirkomulagið á réttarhöldunum yfir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem repúblikanar eru sakaðir um að hafa hannað til að verja forsetann.
Demókratar notuðu tækifærið til þess að vekja athygli á þeim gögnum sem þeir segja að sýni fram á sekt Trumps, en hann hefur verið ásakaður af fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir að misnota vald sitt og halda enn fremur upplýsingum frá þinginu.
Repúblikönum tókst hins vegar að verjast öllum tilraunum demókrata til þess að breyta fyrirkomulaginu á réttarhöldunum en þeir hafa meirihluta í öldungadeildinni, 53 þingmenn af eitt hundrað. Þessi fyrsti dagur réttarhaldanna tók 13 klukkustundir.
Vonir repúblikana standa til þess að hægt verði að ljúka afgreiðslu málsins fyrir lok þessa mánaðar samkvæmt frétt AFP. Demókratar hafa harðlega gagnrýnt þá ákvörðun Mitchs McConnell, leiðtoga repúblikana í öldungadeildinni, að kalla ekki fyrir vitni.
„Þeir vilja ekki sanngjörn réttarhöld,“ er haft eftir fulltrúadeildarþingmanninum Adam Schiff í fréttinni en hann fer fyrir saksóknurum demókrata í málinu. „Þeir vilja ekki að þið heyrið í þessum vitnum. Þeir vilja ekki að hlutlægt réttlæti komi við sögu.“
Demókratar rifjuðu upp í tengslum við umræðuna að Trump hefði sagt að hann hefði ekkert á móti því að vitni kæmu fyrir öldungadeildina vegna málsins. Sömuleiðis vöktu þeir, sem fyrr segir, athygli á þeim gögnum sem þeir telja að sanni sekt forsetans.
Viðbrögð lögfræðinga repúblikana voru þau að segja að rannsókn fulltrúadeildarinnar á Trump hefði ekki verið sanngjörn. Hafa þeir sakað demókrata um pólitíska tilraun til þess að koma höggi á forsetann fyrir forsetakosningarnar í nóvember.