Gert að koma í veg fyrir þjóðarmorð

Alþjóðadómstóll Sameinuðu þjóðanna hefur fyrirskipað stjórnvöldum í Búrma að grípa strax til aðgerða til að koma í veg fyrir þjóðarmorð á minnihlutahópi múslima, rohingjum. Þetta er í fyrsta skipti sem Búrma er dregið fyrir dóm eftir að herinn réðst á byggðir rohingja árið 2017. Í kjölfarið flúðu um 740 þúsund rohingjar yfir til Bangladess þar sem fólkið býr við ömurlegar aðstæður í flóttamannabúðum.

Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur sett fram fjölmörg tilmæli sem Búrma er gert að fylgja. Meðal annars að hætta drápum á rohingjum og vísvitandi að reyna að útrýma þjóðarbrotinu. Stjórnvöldum í Búrma er gert að skila skýrslu til dómstólsins eftir fjóra mánuði og síðan á hálfs árs fresti.

Rohingjabarn í Jamtoli-flóttamannabúðunum í Ukhia.
Rohingjabarn í Jamtoli-flóttamannabúðunum í Ukhia. AFP

Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma, kom fyrir dómstólinn í síðasta mánuði til að svara fyr­ir ásak­an­ir um þjóðarmorð. 

Gambía hóf mála­rekst­ur fyr­ir dóm­stóln­um, sem er æðsti dóm­stóll Sam­einuðu þjóðanna og stóðu 57 múslimaríki á bak við málið. Eins hafa Kanada og Holland lýst stuðningi við málflutninginn fyrir dómstólnum.

Aðeins nokkrir dagar eru síðan yfirvöld í Búrma viðurkenndu að líklega hefðu einhverjir hermenn framið stríðsglæpi gagnvart minnihlutahópnum en að herinn væri ekki sekur um þjóðarmorð. Yfir 100 borgaraleg samtök í Búrma lýstu í gær yfir stuðningi við málflutninginn í Haag. Að stjórnvöld í Búrma væru óhæf um að tryggja að þeir sem hefðu framið voðaverkin yrðu látnir gjalda fyrir það. 

Þegar Suu Kyi kom fyrir dóminn í desember varði hún gjörðir hersins og að land hennar væri fullfært um að rannsaka allar slíkar ásakanir á hendur hernum um misnotkun og önnur brot. Málið gæti bara aukið á vandann.

Forseti Alþjóðadómstóls SÞ í Haag, Abdulqawi Ahmed Yusuf, les upp …
Forseti Alþjóðadómstóls SÞ í Haag, Abdulqawi Ahmed Yusuf, les upp ákvörðun dómstólsins í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert