Donald Trump verður í dag fyrsti sitjandi forseti Bandaríkjanna til þess að taka þátt í árlegri samkomu fólks sem berst gegn þungunarrofi. Á sama tíma og samkoman fer fram verða öldungadeildarþingmenn að ræða ákæru á hendur forsetanum í þinghúsinu þar skammt frá.
Fullvíst þykir að Trump verði tekið sem hetju á fundinum í National Mall í Washington en von er á fleiri hundruð þúsund andstæðingum þungunarrofs á samkomuna March for Life.
Áður en Trump hóf afskipti af stjórnmálum lýsti hann sér sjálfum sem stuðningsmanni rétts til fóstureyðina en hann hefur breytt um stefnu og tekið stöðu með þeim sem berjast gegn fóstureyðingum.
Marjorie Dannenfelser, sem stýrir herferð gegn þungunarrofi, SBA List, segir að þau standi stolt með Trump forseta og þau muni öll tryggja endurkjör hans.
Samkoman March for Life hefur verið haldin árlega í janúar eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að niðurstöðu í málinu Roe gegn Wade. Hæstiréttur úrskurðaði að konur eigi rétt á að eyða fóstri 22. janúar 1973.
Í júní árið 1969 uppgötvaði Norma L. McCorvey, þá 21 árs einstæð tveggja barna móðir, að hún væri þunguð af sínu þriðja barni. Hún vildi ekki eignast barnið enda buðu aðstæður hennar ekki upp á að hún gæti veitt barninu viðunandi heimilisaðstæður og var henni ráðlagt af vinum að gefa rangan vitnisburð um að henni hefði verið nauðgað því á þessum tíma var löglegt að fara í fóstureyðingu í Texasríki ef konunni hafði verið nauðgað eða ef þungunin ógnaði lífi hennar.
McCorvey ákvað að reyna þetta en áætlunin féll hins vegar um sjálfa sig þar sem ekki var um neina lögregluskýrslu að ræða um að henni hefði verið nauðgað. Hún ákvað því að fara á læknastofu sem framkvæmdi ólöglegar fóstureyðingar í Dalls í Texas en það rann einnig út í sandinn þar sem lögregla hafði lokað læknastofunni.
Árið 1970 ákváðu tveir lögmenn, Linda Coffee og Sarah Weddington, að taka mál McCorvey að sér og höfðuðu mál fyrir hennar hönd (undir dulnefninu Jane Roe) fyrir héraðsdómi í Dallas gegn Texasríki. Auk Roe höfðaði læknirinn James Hallford mál en í máli þeirra kom fram gagnrýni á lög ríkisins um að fóstureyðingar væru ólöglegar nema þungunin væri tilkomin vegna nauðgunar eða að þungunin gæti ógnað lífi móður. Töldu þau að lögin væru ekki nægjanlega skýr og erfitt gæti verið að ákvarða hvort viðkomandi félli undir ákvæði laganna.
Málið endaði fyrir Hæstarétti eftir að héraðsdómur dæmdi Roe í vil og byggði niðurstöðu sína á níundu grein bandarísku stjórnarskrárinnar.
Hæstiréttur úrskurðaði (sjö gegn tveimur) 22. janúar 1973 að breyta ætti lögum Texas en Henry Wade, saksóknari í Dallas, fór með málið fyrir hönd Texasríkis. Niðurstaðan var því Roe (McCorvey) í vil en einungis að hluta lækninum í vil. Þann sama dag úrskurðaði Hæstréttur jafnframt að ríki gætu bannað fóstureyðingar á seinni hluta meðgöngu.
Undanfarin tvö ár hefur Trump ávarpað samkomuna í gegnum myndbúnað. Í fyrra sagðist hann hafa tilkynnt þingheimi að hann myndi ekki skrifa undir nein lög sem veiki rétt til lífs.