Þrjátíu og fjórir bandarískir hermenn hlutu heilaáverka eða heilahristing í árás Írana á herstöð Bandaríkjanna í Írak í kjölfar vígs Qasem Soleimani, æðsta herforingja Írana.
Þetta tilkynnti varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna í dag, en í kjölfar fyrstu frétta af loftárás Írana fullyrti Donald Trump Bandaríkjaforseti að enginn hermanna Bandaríkjanna hefði særst í árásinni.
Skömmu síðar tilkynntu bandarísk yfirvöld að ellefu hefðu hlotið tjón af árásinni og hefur nú verið staðfest að 34 bandarískir hermenn hlutu heilaáverka.
Sautján þeirra voru fluttir til Þýskalands til aðhlynningar. Þar af eru níu enn undir eftirliti þýskra heilbrigðisyfirvalda, en átta komu heim til Bandaríkjanna í dag til áframhaldandi meðferðar.
Hinn helmingur þeirra sem slösuðust í árásinni er snúinn aftur til hernaðarskyldna sinna í Írak.