Ferðafrelsi 56 milljóna borgara í Kína hefur nú verið skert, í tilraunum stjórnvalda þar í landi til þess að hefta frekari útbreiðslu kórónaveirunnar, sem á uppruna sinn í stórborginni Wuhan í Hubei-héraði.
Um 1.300 manns hafa greinst með veiruna í Kína og fjörutíu og einn einstaklingur látist hennar vegna, flestir í Wuhan-borg, en kínversk yfirvöld greindu frá því í dag að þar hefðu fimmtán til viðbótar andast síðasta sólarhringinn eftir að hafa smitast af veirunni.
Hertar ferðareglur tóku gildi í dag í fimm borgum í Hubei-héraði og ná þær nú alls til 18 borga, en reglurnar fela meðal annars í sér að almenningssamgöngum og stofnvegum er lokað til þess að reyna að hefta för fólks og þar með vonandi útbreiðslu veirunnar.
„Enginn má fara,“ sagði lögreglumaður í austurhluta Wuhan-borgar við fréttamann AFP, en lögreglumaðurinn stóð vaktina á lokunarpósti við þjóðveginn út úr borginni og vísaði öllum til baka sem þaðan reyndu að aka. Fólki var líka snúið til baka frá borgarmörkunum, en AFP greinir þó frá því að einhverju heilbrigðisstarfsfólki hafi verið hleypt í gegnum vegatálmana og inn til Wuhan, til þess að létta af álaginu á samstarfsfólki sínu á spítölum í borginni.
Kínverski herinn hefur að auki sent um 450 herlækna til Wuhan til þess að hjálpa heilbrigðisstarfsmönnum þar að ráða við stöðuna, samkvæmt fregnum kínverska ríkisfjölmiðla.
Hermennirnir komu með flugvél til borgarinnar í gærkvöldi og í þeirra hópi eru læknar sem hafa reynslu af því að takast á við útbreiðslu smitsjúkdóma á borð við ebólu og SARS-veiruna (heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu), lungnasýkingarinnar sem kom upp árið 2003 í Kína og varð að heimsfaraldri sem dró 774 til dauða á rúmu ári.
Kínversk yfirvöld kynntu einnig í dag að þar yrði gripið til umfangsmikilla aðgerða um allt land til þess að reyna að greina og þá einangra veikt fólk er það ferðast um í samgöngukerfinu innanlands.
Ströng fyrirmæli hafa verið gefin út til allra þeirra sem annast lestar-, flug-, ferju- eða rútusamgöngur um að gera ráðstafanir hið snarasta til þess að skima megi fyrir sjúkdómnum á meðal farþega á stoppistöðvum, flugvöllum eða við hafnir.
Frá Frakklandi berast þær fregnir í morgunsárið að eitt tilfelli veirunnar til viðbótar hafi verið staðfest og eru þau því orðin þrjú, en Agnes Buzyn heilbrigðisráðherra landsins staðfesti í gærkvöldi að tveir væru smitaðir. Sá þriðji sem smitaðist er í frétt AFP sagður náskyldur öðrum þeim sem þegar lá inni á spítala vegna veirunnar þar í landi. Þetta eru einu staðfestu tilfellin í Evrópu.
Yfirvöld í Ástralíu og Malasíu hafa einnig staðfest í dag að smit hafi greinst. Í Ástralíu er um að ræða einn ferðamann frá Kína sem kom til Melbourne fyrir viku, en í Malasíu eru þrír Kínverjar veikir.