Xi segir Kína geta unnið „bardagann“ við veiruna

Xi Jinping forseti Kína varaði við því í dag að …
Xi Jinping forseti Kína varaði við því í dag að útbreiðsluhraði kórónaveirunnar færi vaxandi. AFP

Xi Jinping forseti Kína segir að landið sé í „alvarlegri stöðu“ vegna aukins hraða í útbreiðslu kórónaveirunnar frá Wuhan, sem um 1.300 manns í landinu hafa greinst með til þessa samkvæmt nýjustu opinberum tölum. Hann segist þó fullviss um að Kínverjar muni geta haft betur í „bardaganum“ við veiruna.

Xi ávarpaði Politburo, stjórnmálaráð kínverska kommúnistaflokksins, vegna málsins í dag og greina kínverskir ríkisfjölmiðlar frá því að forsetinn hafi sagt að svo lengi sem Kínverjar hefðu sjálfstraust, samvinnu, vísindalegar lausnir og nákvæma stefnu að leiðarljósi myndi bardaginn gegn veirunni vinnast.

Fimmtíu og sex milljónir borgara hið minnsta sæta ferðatakmörkunum í Hubei-héraði um miðbik Kína. Í stórborginni Wuhan, þar sem veiran er upprunnin, verður almenningi ekki leyft að aka um götur borgarinnar á morgun, samkvæmt frétt AFP.

Um 1.300 manns í Kína hafa greinst með veiruna til …
Um 1.300 manns í Kína hafa greinst með veiruna til þessa samkvæmt nýjustu opinberum tölum. AFP

Neyðarástandi lýst yfir í Hong Kong

Í Hong Kong var neyðarástandi lýst yfir fyrr í dag vegna útbreiðslu veirunnar. Fimm hafa greinst með veiruna þar, þar af fjórir sem komu með nýrri hraðlest frá meginlandi Kína.

Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, segir að skólar í borginni, jafnt barnaskólar sem háskólar, verði lokaðir allt til 17. febrúar, en frí er í skólum þessa dagana vegna kínverska nýársins, en ár rottunnar gengur í garð í dag, 25. janúar.

Frá Hong Kong í dag. Þeir sem þar fagna ári …
Frá Hong Kong í dag. Þeir sem þar fagna ári rottunnar eru flestir með grímur fyrir vitum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert