Albert II, fyrrverandi konungur Belgíu, játaði í dag að fimmtug kona að nafni Delphine Boël væri dóttir hans, líkt og hún hefur lengi haldið fram. Dómstóll í Brussel fyrirskipaði fyrrverandi konunginum að taka faðernispróf árið 2018.
Fram kemur í frétt AFP að konungurinn fyrrverandi hafi átt í löngu framhjáhaldi með móður Boëls, Sybille de Selys Longchamps barónessu og átt dóttur með henni.
Faðernispróf sem framkvæmt var 2013 hafði áður sannað að iðnjöfurinn Jacques Boël væri ekki faðir Boëls. Albert, sem er 83 ára, lét af konungdómi þetta sama ár, en sú ákvörðun þýddi að hann er ekki lengur undanþeginn því að hlýta ákvörðunum dómstóla.
Í yfirlýsingu frá Alberti kom fram að hann sæi engan tilgang í því að halda áfram í þessu erfiða máli en hann hafði áður neitað því staðfastlega að vera faðir Boël.