Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, neitaði í dag að hafa sagt John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Hvíta hússins, að hernaðaraðstoð til Úkraínu væri háð því skilyrði að stjórnvöld þar myndu rannsaka pólitískan andstæðing hans.
Þetta kemur fram í færslu Trumps á Twitter en í gær birti New York Times frétt þar sem fram kemur að Bolton staðhæfi þetta í bók sem hann er að gefa út. „Ef John Bolton segir þetta þá er það bara til þess að selja bókina,“ skrifar Trump á fjölmiðil sinn — Twitter.
I NEVER told John Bolton that the aid to Ukraine was tied to investigations into Democrats, including the Bidens. In fact, he never complained about this at the time of his very public termination. If John Bolton said this, it was only to sell a book. With that being said, the...
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 27, 2020
Samkvæmt óbirtu handriti Boltons á Trump að hafa sagt Bolton að hann vildi frysta 391 milljón Bandaríkjadala sem var eyrnamerkt sem aðstoð fyrir Úkraínu þangað til stjórnvöld í Kænugarði myndu hefja rannsókn á demókratanum Joe Biden.
Trump var kærður fyrir embættisbrot í síðasta mánuði. Demókratar hafa farið fram á að embættismenn í valdatíð Trumps beri vitni, þar á meðal Bolton og Mick Mulvaney, skrifstofustjóri Hvíta hússins. Telja demókratar að þeir tveir viti ýmislegt um samninga Trumps í Úkraínu. Bolton segir að hann sé reiðubúinn til þess verði honum stefnt fyrir dóm.
...(Democrats said I never met) and released the military aid to Ukraine without any conditions or investigations - and far ahead of schedule. I also allowed Ukraine to purchase Javelin anti-tank missiles. My Administration has done far more than the previous Administration.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 27, 2020