Dauðsföllum af völdum kórónaveirunnar heldur áfram að fjölga og hafa kínversk yfirvöld staðfest að 131 er látinn og 5.578 hafa smitast. Smitum hefur fjölgað um tæplega 3.000 síðan í gær.
Enn frekar hefur verið hert á ferðatakmörkunum fólks og í sumum borgum er nú skylda að bera grímur á almannafæri.
Um 200 Japanir og 240 Bandaríkjamenn voru fluttir burtu frá Wuhan-héraði í dag, en kórónaveiran á rætur sínar að rekja til fiskmarkaðs í héraðinu.
Flest tilfelli utan Kína hafa komið upp í Asíu en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) hafa hvatt sóttvarnayfirvöld um heim allan til að gera ráðstafanir til að geta brugðist fljótt við ef veikin berst til fleiri landa.
Smit utan Kína eru orðin 84 talsin, flest í Taílandi eða 14 talsins, 8 í Hong Kong og Taívan, 7 í Japan, Macau og Singapúr, 5 í Ástralíu og Bandaríkjunum, 4 í Þýskalandi, Malasíu og S-Kóreu, 2 í Kanada og Víetnam og eitt smit hefur greinst í Kambódíu, Nepal og Sri Lanka.
Sérfræðingar við verkfræðideild John Hopkins-háskóla í Maryland í Bandaríkjunum hafa útbúið gagnvirkt kort þar sem hægt er að fylgjast með útbreiðslu kórónaveirunnar. Kortið má nálgast hér en það er uppfært reglulega.