Dauðsföllum af völdum kórónaveirunnar heldur áfram að fjölga og hafa kínversk yfirvöld staðfest að 170 eru látnir og 6.165 hafa smitast. Smitum hefur fjölgað um tæplega 1.000 síðan í gær.
Greint var frá því fyrr í kvöld að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefði boðað til neyðarfundar á morgun vegna útbreiðslu veirunnar. Þar verður ákveðið hvort lýsa eigi yfir alþjóðlegu neyðarástandi.
Veiran hefur breiðst út víðs vegar um Kína og til að minnsta kosti 17 annarra landa. Þó svo að tilfellin utan Kína séu enn tiltölulega fá telur stofnunin að veiran geti breiðst enn frekar út utan Kína.
Sérfræðingar við verkfræðideild John Hopkins-háskóla í Maryland í Bandaríkjunum hafa útbúið gagnvirkt kort þar sem hægt er að fylgjast með útbreiðslu kórónaveirunnar. Kortið má nálgast hér en það er uppfært reglulega.