Bæta skaðann sem reykingar valda

Það getur borgað sig að drepa í.
Það getur borgað sig að drepa í. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lungu reykingamanns geta á undraverðan hátt lagfært krabbameinsstökkbreytinguna sem orsakast vegna reykinga, en eingöngu ef viðkomandi hættir að reykja.

Þetta kemur fram í grein í vísindaritinu Nature.

Áður hafði því verið haldið fram að stökkbreytingarnar sem orsaka lungnakrabbamein væru varanlegar og því enn til staðar jafnvel eftir að slökkt væri í síðustu sígarettunni.

Samkvæmt áðurnefndri grein geta frumur sem sleppa við skaðann lagað lungun.

Þetta hafa sérfræðingar séð, jafnvel hjá sjúklingum sem reyktu pakka á dag í 40 ár áður en þeir hættu.

Enn fremur kemur fram að ekki sé vitað með vissu hvers vegna nokkrar frumur komist óskaddaðar frá stökkbreytingunum en ekki aðrar. Vísindamenn segja að það megi líkja því við að þær séu í „kjarnorkubyrgi“.

„Við bjuggumst ekki við þessu,“ sagði vísindamaðurinn Peter Campbell í samtali við BBC. Hann bætti því við að greinilegt væri að einhverjum frumum tækist að forðast stökkbreytinguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert