BBC fækkar fréttamönnum um 450

Unsworth segir að fréttadeildir BBC sinni um 100 mismunandi fréttum …
Unsworth segir að fréttadeildir BBC sinni um 100 mismunandi fréttum daglega sem margar hverjar nái ekki til markhópsins. AFP

Starfsfólki á fréttadeildum Breska ríkisútvarpsins BBC verður fækkað um 450 við skipulagsbreytingar sem ætlað er að lækka rekstrarkostnað um 80 milljónir punda.

Þessu er greint frá á vef Guardian. Þar segir að starfsfólki BBC hafi þegar verið tilkynnt um breytingarnar, sem muni leiða af sér skertan fréttaflutning. 

Samkvæmt yfirmanni frétta hjá BBC, Fran Unsworth, munu frétta- og blaðamenn ríkisútvarpsins héðan í frá starfa í auknum mæli í miðstýrðum hópum fremur en að vinna fyrir sérstaka miðla eða deildir ríkisútvarpsins.

Rekstrarmódel ríkisútvarpsins eigi undir högg að sækja

Unsworth segir að fréttadeildir BBC sinni um 100 mismunandi fréttum daglega sem margar hverjar nái ekki til markhópsins.

Þá eigi BBC undir högg að sækja vegna breyttrar hegðunar lesenda og ásakana um hlutdrægni, auk þess sem rekstrarmódel ríkisútvarpsins, sem er aðallega rekið á útvarpsgjöldum, sæti sífellt háværari gagnrýni almennings, sem vilji heldur aðeins greiða fyrir þá þjónustu sem hann notar.

Samkvæmt Wikipedia starfa 3.500 manns á fréttadeildum BBC og eru frétta- og blaðamenn þar af 2.000.

Frétt Guardian

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert