Slökkviliðsmenn í Ástralíu hafa staðið í ströngu frá því í október en fordæmalausir gróðureldar hafa geisað í mikilli hitabylgju.
Kærkomin úrkoma fyrr í þessum mánuði hefur sums staðar létt undir slökkvistörfum þó að ljóst sé að mun meira regn þurfi til þess að slökkva alveg í eldunum. Þá rignir alls ekki alls staðar þar sem skógareldarnir loga.
Slökkviliðsmenn hafa brugðið á það ráð að dansa í gegnum erfiðustu vaktirnar og hafa sumir hverjir birt afraksturinn á samfélagsmiðlinum Tik Tok við góðar undirtektir. Dansinn er ekki síst til að létta lund slökkviliðsmannanna.
Myndskeið slökkviliðsmannsins Chris Rumpf hafa vakið sérstaka lukku og fengið yfir milljón áhorf. „Ég gerði þetta upphaflega til að koma vinnufélögunum í betra skap,“ segir Rumpf í samtali við BBC. Hann segir það hafa tekið á að fara í gegnum minningar fólks á heimilum sem hafa brunnið til kaldra kola. „Eigendur húsanna hafa komið að okkur með tárin í augunum, þau hafa misst allar eigur sínar og það tekur á.“
Gríðarlegt landflæmi hefur eyðilagst, hundruð milljóna dýra drepist og yfir tvö þúsund heimili eyðilagst. 29 manns hafa látist í eldunum.
„Ég hvet strákana til að dansa smá og létta lundina, og ég held að það hafi virkað,“ segir Rumpf, sem segist þó gera sér grein fyrir því að þeir séu að dansa á fínni línu enda gróðureldarnir afar alvarlegir. „En viðbrögðin sem við höfum fengið við þessu eru fyrst og fremst jákvæð.“