Frakkar af asískum uppruna hafa orðið fyrir mismunun vegna kórónaveirunnar og vekja athygli á því á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #JeNeSuisPasUnVirus eða „Ég er ekki veira“.
Dæmi eru um að Frakkar og Bretar af asískum uppruna hafi orðið fyrir aðkasti á götum úti, í almenningssamgöngum og á samfélagsmiðlum.
Þá þykir franska dagblaðið Le Courier Picard hafa gengið of langt með fyrirsögnunum „Le péril jaune“ eða „Gul hætta“ og „Alerte jaune“ eða „Gul viðvörun“, hugtaki sem Íslendingar eru vel kunnugir í öðru samhengi. Á mynd við fyrirsagnirnar er svo mynd af kínverskri konu með grímu fyrir vitunum.
Forsvarsmenn dagblaðsins voru fljótir að biðjast afsökunar og sögðu ætlunina ekki hafa verið að ýta undir „slæma asíska staðlaða ímynd“.
Stéphane Nivet, formaður Licra, samtaka sem berjast gegn kynþáttahatri, segir að engum fjölmiðli hefði dottið í hug að nota fyrirsögnina „Svört viðvörun“ og því væri um vandamál að ræða.
Tæplega sex þúsund manns hafa greinst með kórónaveiruna og að minnsta kosti 132 látið lífið. Fimm tilfelli hafa greinst í Frakklandi, það fimmta fékkst staðfest í kvöld þegar dóttir kínversks ferðamanns greindist en faðir hennar var sá fjórði sem greindist með veiruna í Frakklandi.
Cathy Tran er ein þeirra sem hefur orðið fyrir aðkasti. Hún var á leið heim úr vinnu í borginni Colmar í austurhluta Frakklands í vikunni þegar hún heyrði tvo menn segja: „Passaðu þig, kínversk stelpa er að nálgast okkur.“ Og það var ekki það eina. Stuttu seinna nálgaðist hana maður á hlaupahjóli og sagði henni að setja á sig grímu, að því er Tran segir í samtali við BBC.
Lou Chengwang er einn þeirra sem hefur tjáð sig undir myllumerkinu #JeNeSuisPasUnVirus. „Ég er kínverskur, en ég er ekki veira. Ég veit að allir eru hræddir við veiruna en enga fordóma, viljið þið vera svo væn.“