Indónesíska flugfélagið Lion Air, sem hefur yfir að ráða stærsta flugvélaflota í Suðaustur-Asíu, ætlar að aflýsa flugferðum til og frá Kína vegna kórónaveirunnar.
„Öllum flugferðum til Kína verður hætt tímabundið frá og með 1. febrúar,“ sagði Danang Mandala Prihantoro, talsmaður flugfélagsins, við AFP-fréttastofuna.
Lion Air ferðast til fimmtán kínverskra borga og hefur þessi ákvörðun því töluverð áhrif hjá flugfélaginu.
Meira en ein milljón kínverskra ferðamanna heimsækir Indónesíu á hverju ári og tugir þúsunda koma einnig til landsins til að vinna.
Lion Air fetar þar með í fótspor British Airways sem hefur einnig ákveðið að hætta flugferðum til og frá Kína.