Settir í einangrun á flóttamannaeyju

Áströlsk yfirvöld ætla að sækja um 600 Ástrala sem eru í kínversku borginni Wuhan og nágrenni og fljúga með þá á Jólaeyju, eyju sem yfirleitt hýsir fólk á flótta sem hefur sótt um alþjóðlega vernd í Ástralíu. Eyjan er í um 2 þúsund km fjarlægð frá meginlandi Ástralíu. Þar verður þeim haldið í einangrun.

Samkvæmt upplýsingum frá kínverskum yfirvöldum eru 132 látnir af völdum kórónaveirunnar og 6.057 smitaðir. Grunur leikur á að rúmlega 9.200 séu smitaðir og alls hafa smit verið staðfest í 16 löndum til viðbótar. 

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, segir að fólk sem er veikt fyrir, svo sem börn, eldri borgarar og þeir sem voru í stuttri heimsókn til Wuhan og nærliggjandi staða í Hubei-héraði, gangi fyrir við brottflutninginn frá Kína. 

Að sögn Morrison er unnið að brottflutningi frá Kína í samstarfi við Nýja-Sjáland en í hans huga sé öryggi Ástrala forgangsatriði. Hann segir að vinna þurfi hratt að málinu þar sem ekki sé mikill tími til stefnu en kínversk yfirvöld hafa lokað Hubei-héraði að mestu til þess að reyna að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. 

Morrison segir að fólki verði haldið í einangrun á Jólaeyju í tvær vikur. Eyjan er helst þekkt fyrir flóttamannabúðir sem þar voru. Hælisleitendur sem reyndu að komast til Ástralíu sjóleiðina voru fluttir þangað og haldið, oft við slæmar aðstæður.

Ekki er vitað hversu mörgum Áströlum verður hægt að koma frá Kína og segir utanríkisráðherra Ástralíu, Marise Payne, að sótt hafi verið um heimild til þess að fljúga með fólkið frá Wuhan. 

Stjórnvöld í Japan og Bandaríkjunum hafa þegar flutt hundruð landa sinna frá Wuhan. Um 30 milljónir manna eru lokaðir inn í Wuhan og nágrenni. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka