Vaxstytta af Thunberg afhjúpuð

Stytta af Gretu Thunberg var afhjúpuð á vaxmyndasafni í Hamborg í Þýskalandi í dag. Thunberg, sem er nýorðin 17 ára, er orðin eins konar táknmynd barna og ung­menna sem berj­ast gegn lofts­lags­vánni, var valin mann­eskja árs­ins hjá banda­ríska frétta­tíma­rit­inu Time og er hún yngsta mann­eskj­an sem hlýt­ur nafn­bót­ina í 92 ára sögu tíma­rits­ins.

Gottfried Krüger, sem hannaði og útbjó styttuna, dáist að Thunberg fyrir að gera loftslagsmál að baráttumáli sínu. Rúmt ár er síðan Thunberg hóf að mót­mæla aðgerðal­eysi stjórn­valda í lofts­lags­mál­um ein­söm­ul fyr­ir utan sænska þing­húsið. 

Thunberg sem vaxmynd skartar mótmælaskiltinu sem var upphaf alls, sem á stendur: Skolstrejk för klimatet eða Skólaverkfall fyrir loftslagsmál. 

Loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg er komin á vaxmyndasafn í Hamborg í …
Loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg er komin á vaxmyndasafn í Hamborg í Þýskalandi. AFP

„Mér þykir það aðdáunarvert að þessi unga stúlka berjist fyrir aðgerðum í loftslagsmálum,“ segir Krüger.

Thunberg hyggst halda ótrauð áfram í baráttunni gegn loftslagsvánni og í dag fékk hún nafnið sitt og slagorðið „Fridays for the future“, eða „Föstudagar fyrir framtíðina“, sem skráð vörumerki til að koma í veg fyrir að nafn hennar eða slagorðið verði notað í annarlegum tilgangi. 

„Ég get fullvissað ykkur um það að hvorki ég né þau sem fara í verkfall alla föstudaga höfum áhuga á vörumerkjum. En því miður varð ég að gera þetta,“ segir Thunberg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert