Stytta af Gretu Thunberg var afhjúpuð á vaxmyndasafni í Hamborg í Þýskalandi í dag. Thunberg, sem er nýorðin 17 ára, er orðin eins konar táknmynd barna og ungmenna sem berjast gegn loftslagsvánni, var valin manneskja ársins hjá bandaríska fréttatímaritinu Time og er hún yngsta manneskjan sem hlýtur nafnbótina í 92 ára sögu tímaritsins.
Gottfried Krüger, sem hannaði og útbjó styttuna, dáist að Thunberg fyrir að gera loftslagsmál að baráttumáli sínu. Rúmt ár er síðan Thunberg hóf að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum einsömul fyrir utan sænska þinghúsið.
Thunberg sem vaxmynd skartar mótmælaskiltinu sem var upphaf alls, sem á stendur: Skolstrejk för klimatet eða Skólaverkfall fyrir loftslagsmál.
„Mér þykir það aðdáunarvert að þessi unga stúlka berjist fyrir aðgerðum í loftslagsmálum,“ segir Krüger.
Thunberg hyggst halda ótrauð áfram í baráttunni gegn loftslagsvánni og í dag fékk hún nafnið sitt og slagorðið „Fridays for the future“, eða „Föstudagar fyrir framtíðina“, sem skráð vörumerki til að koma í veg fyrir að nafn hennar eða slagorðið verði notað í annarlegum tilgangi.
„Ég get fullvissað ykkur um það að hvorki ég né þau sem fara í verkfall alla föstudaga höfum áhuga á vörumerkjum. En því miður varð ég að gera þetta,“ segir Thunberg.