Dagbók frá draugaborginni Wuhan

Jangtse-fljót, lengsta fljót Asíu, rennur í gegnum Wuhan.
Jangtse-fljót, lengsta fljót Asíu, rennur í gegnum Wuhan. AFP

Guo Jing býr í Wuhan, kínversku borginni þar sem kórónaveiran kom fyrst upp. Borgin hefur svo gott sem verið lokuð í viku, eða frá 23. janúar. Al­menn­ings­sam­göng­um og stofn­veg­um hefur verið lokað til þess að reyna að hefta för fólks og þar með von­andi út­breiðslu veirunn­ar. Þá hefur McDonalds ákveðið að loka öll­um veit­inga­stöðum fyr­ir­tæk­is­ins í Hubei-héraði en Wu­h­an tilheyrir héraðinu.

Þeir sem ekki yfirgáfu borgina strax hafa því lítið annað að gera en að bíða og sjá hvernig fram vindur. Veiran hefur breiðst hratt út. Í upphafi árs bárust fregnir um fyrsta dauðsfallið af völdum veirunnar, sem hefur fengið nafnið 2019-nCov hjá vísindamönnum, en kallast í daglegu tali kórónaveira eða Wuhan-veira, en veiran á upptök sín á fiskmarkaði í borginni. Um mánuði síðar eru dauðsföllin orðin 170 og smitin nálgast átta þúsund. 

Jing er 29 ára félagsfræðingur og aðgerðasinni. Hún er ein af ellefu milljónum sem búa í Wuhan, sem er sjöunda stærsta borg Kína. Borgin er ein mikilvægasta iðnaðarborg landsins og hvergi í landinu eru fleiri háskólanemar en í Wuhan. Borgin er einnig mikilvæg samgöngumiðstöð en tuttugu milljónir farþega fara um Wuhan-flugvöllinn árlega.  

Jing býr ein og hefur haldið dagbók síðustu viku sem hún hefur deilt með breska ríkisútvarpinu. Dagarnir hafa reynt á, ekki síst andlega, eins og sjá má á þessum dagbókarbrotum:

Fimmtudagur 23. janúar - Dagurinn sem borginni var lokað 

„Ég vissi ekki hvað ég átti að gera daginn sem ég vaknaði og heyrði að loka átti borginni. Ég vissi ekki hvað það þýddi, hversu lengi lokunin myndi standa yfir og hvernig ég átti að undirbúa mig. 

Það eru margir að æsa sig [á samfélagsmiðlum], að margir sjúklingar verði ekki lagðir inn [vegna skorts á legurýmum], og að sjúklingar með hita fái ekki almennilega umönnun. 

Margir eru með grímur. Vinir hafa sagt mér að birgja mig upp af ýmsum vörum. Hrísgrjón og núðlur eru að seljast upp. Einn maður var að kaupa fullt af salti og einhver spurði hann af hverju hann væri að kaupa svona mikið. Hann svaraði: „Hvað ef lokunin varir í heilt ár?“

Eftir að hafa birgt mig upp af mat er ég enn í áfalli. Bílum og gangandi vegfarendum fer fækkandi og allt líf í borginni stöðvast skyndilega.“

Föstudagur 24. janúar - Hljóðlátt gamlárskvöld

„Heimurinn er þögull, þögnin er ærandi. Ég bý ein og hef mikinn tíma til að hugsa um hvernig ég ætla að komast af. Ég hef engar bjargir og ekkert tengslanet. 

Eitt af markmiðum mínum er að komast hjá því að veikjast, ég þarf að hreyfa mig reglulega. Matur er einnig mikilvægur til að lifa af, þannig að ég verð að vita hvort ég eigi nægar birgðir.

Ríkisstjórnin hefur ekki gefið út hversu löng lokunin verður né hvernig við eigum að komast af í þessum aðstæðum. Fólk er að segja að ástandið gæti verið svona fram í maí.

Núðlur eru uppseldar í stórvörumörkuðum, en það eru enn þá til hrísgrjón. Ég fór líka á markaðinn í dag. Ég keypti sellerí, hvítlauk og egg. Þegar ég kom heim þvoði ég öll fötin mín og fór í sturtu. Hreinlæti er mikilvægt — ég held að ég þvoi hendurnar 20 til 30 sinnum á dag.

Að fara út úr húsi lætur mér líða eins og ég hafi enn tengingu við umheiminn. Það er erfitt að ímynda sér hvernig eldri borgarar sem búa einir og fatlað fólk komast í gegnum þetta.

Íbúar í Wuhan bíða eftir læknisaðstoð á spítala Rauða krossins …
Íbúar í Wuhan bíða eftir læknisaðstoð á spítala Rauða krossins í borginni. AFP

Ég vildi ekki elda minna en vanalega, þetta er síðasta kvöld ársins, árs svínsins — þetta átti að vera máltíð fagnaðar. Ég talaði við vini mína í myndsímtali yfir kvöldmatnum. Við komumst ekki hjá því að tala um veiruna. Einn hóstaði og annar sagði honum að leggja á, í gríni. Við töluðum saman í þrjá klukkutíma og ég hélt að ég myndi fara glöð að sofa. En þegar ég lokaði augunum birtust minningar síðustu daga. Ég táraðist. Mér leið ósjálfbjarga, ég var reið og döpur.

Ég hugsaði líka um dauðann. Ég sé ekki eftir neinu, starf mitt er þýðingarmikið. En ég vil ekki að líf mitt taki enda.“

Laugardagur 25. janúar - Einmanaleg kínversk áramót

„Í dag er kínverskt nýtt ár. Ég hef aldrei haft mikinn áhuga á að fagna hátíðisdögum, en í ár skiptir nýja árið enn þá minna máli. 

Í morgun sá ég blóð þegar ég hnerraði og varð hrædd. Ég hugsaði með mér hvort ég ætti að fara út. Ég var ekki með hita og góða matarlyst, svo ég fór út.

Ég var með tvær grímur þó svo að fólk segi að það sé tilgangslaust. Ég er alltaf með þessa þörf að kaupa alls konar þegar ég fer í búðina. Ég keypti 2,5 kíló af hrísgrjónum, þó að ég eigi 7 kíló heima.“

Kór­óna­veir­an á upp­tök sín í borg­inni Wu­h­an í Hubei-héraði í …
Kór­óna­veir­an á upp­tök sín í borg­inni Wu­h­an í Hubei-héraði í Kína. Borginni hefur verið svo gott sem lokað frá 23. janúar. AFP

Sunnudagur 26. janúar - Að láta rödd þína heyrast

„Það er ekki bara borgin sem er í fjötrum. Raddir fólksins eru það líka. Á fyrsta degi lokunarinnar gat ég ekki skrifað neitt á samfélagsmiðla [sökum ritskoðunar stjórnvalda]. Ég gat ekki einu sinni notað WeChat. Ritskoðun á netinu hefur lengi verið til staðar í Kína, en núna finnst mér þetta einstaklega grimmilegt.

Ég fór aftur út í dag og reyndi að telja hversu marga ég hitti — ég hitti átta frá því að ég fór að heiman og á núðlustaðinn, um 500 metra leið. Venjulega hitti ég svona 100 manns á dag.

Um klukkan átta í kvöld heyrði ég kallað: „Áfram Wuhan“ frá gluggum í íbúðum fólks. Þetta er hvatningarsöngur og einhvers konar valdefling.“ 

Íbúar í Wuhan sem eru af öðru þjóðerni hafa verið …
Íbúar í Wuhan sem eru af öðru þjóðerni hafa verið fluttir í bílförmum frá borginni. Í þessari rútu eru Japanir sem fengu lögreglufylgd úr borginni. AFP

Þriðjudagur 28. janúar - Loksins sólarglæta

„Hræðsla og óðagot hefur orðið til þess að fólk snýst gegn hvert öðru. En í dag er loksins sól — eins og í hjarta mínu. 

Ég hitti fleira fólk. Það er ekki auðvelt að byggja upp traust og tengsl við fólk þegar borgin er lokuð. Samfélagsleg þátttaka er mikilvæg þörf. Allir þurfa að finna sitt hlutverk í samfélaginu sem gefur lífi fólks meiningu. 

Í þessara einmanalegu borg verð ég að finna mitt hlutverk.“

Ferðaf­relsi 56 millj­óna borg­ara í Kína hef­ur nú verið skert, …
Ferðaf­relsi 56 millj­óna borg­ara í Kína hef­ur nú verið skert, í til­raun­um stjórn­valda þar í landi til þess að hefta frek­ari út­breiðslu kór­óna­veirunn­ar, sem á upp­runa sinn í stór­borg­inni Wu­h­an í Hubei-héraði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert