Eitraði fyrir nýbura með morfíni

Börnin lifðu öll af og munu líklega ekki hafa skaðast …
Börnin lifðu öll af og munu líklega ekki hafa skaðast neitt. AFP

Þýskur hjúkrunarfræðingur, kona sem starfaði á Ulm-háskólasjúkrahúsinu í suðurhluta Þýskalands, hefur verið handtekin vegna gruns um að hún hafi eitrað fyrir fimm nýbura með morfíni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þýskum yfirvöldum en AFP-fréttastofan greinir frá. Í tilkynningunni kemur fram að öll börnin hafi lifað af.

Konan var handtekin í kjölfar þess að sprautur sem innhéldu brjóstamjólk blandaða morfíni fundust í skáp hennar á sjúkrahúsinu. Sprauturnar höfðu verið notaðar til að gefa nýburunum að drekka.

Börnin, sem voru á aldrinum dagsgömul til fimm vikna og dvöldu í sama herberginu á sjúkrahúsinu, áttu skyndilega í öndunarerfiðleikum, öll á sama tíma, snemma morguns hinn 20. desember síðastliðinn.

Það var aðeins skjótum viðbrögðum starfsfólks sjúkrahússins að þakka að börnin lifðu af, en ekki er búist við að þau hljóti nokkurn skaða af vegna þessa, að því er fram kom á blaðamannafundi lögreglunnar.

Hjúkrunarfræðingurinn hefur ekki verið ákærð ennþá en hún á yfir höfði sér fimm ákærur vegna tilraunar til manndráps og tilraunar til að valda líkamlegum skaða. Hún neitar hins vegar að hafa eitrað fyrir börnin.

Í fyrstu var talið að börnin hefðu fengið einhvers konar sýkingu en niðurstöður úr þvagsýnum sem bárust hinn 16. janúar sýndu að svo var ekki. Í sýnunum komu hins vegar fram leifar af morfíni, þrátt fyrir að ekkert barnanna hefði átt að fá sterk verkjalyf. Lögreglu var því tilkynnt málið daginn eftir.

Leitað var í skápum sex starfsmanna sjúkrahússins sem voru á vakt á þeim tíma sem börnin áttu í öndunarerfiðleikum og í skáp konunnar fundust sprautur með leifum af brjóstamjólk og morfíni, en nýburum sem eru latir að drekka er oft gefin mjólk með sérstökum sprautum. Mjólkin er hins vegar aldrei blönduð lyfjum.

Of stór skammur af morfíni getur leitt til öndunarerfiðleika eða öndunarstopps og notkun þess er ströngum reglum háð í Þýskalandi. Lyfið er alltaf geymt í læstum skápum á heilbrigðisstofnunum og skrá haldin yfir lyfjagjöf til sjúklinga. Í ljós kom að þessar skrár stemmdu ekki við birgðastöðu á Ulm-sjúkrahúsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert