Ekki um kórónasmit að ræða í skemmtiferðaskipi

Grun­ur kom upp um að tveir farþeg­ar skemmtiferðaskipsins Costa Smeralda …
Grun­ur kom upp um að tveir farþeg­ar skemmtiferðaskipsins Costa Smeralda gætu verið smitaðir af kór­óna­veirunni eftir að annar þeirra fékk hita. Skipið var kyrrsett og farþegum gert að halda kyrru fyrir á meðan sýni úr farþegunum var rannsakað og reyndust þeir ekki smitaðir af kórónaveirunni. AFP

Tveir kínverskir farþegar ítalsks skemmtiferðaskips sem haldið hefur verið í einangrun eftir að grunur lék á þeir hefðu smitast af kórónaveirunni reyndust ekki vera með veiruna eftir allt saman. Frá þessu greina ítölsk heilbrigðisyfirvöld.

Yfir sex þúsund ferðamenn voru kyrr­sett­ir á skemmti­ferðaskipinu Costa Smeralda við höfn í strand­bæn­um Ci­vita­vecchia, norðvest­ur af Róm, fyrr í dag. 

Farþegarnir, ásamt 1.000 manna áhöfn, hafa nú fengið leyfi til að fara frá borði. 

Fyrirtækið sem rekur skemmtiferðaskipið, Costa Cruises, hefur samt sem áður gripið til ráðstafana vegna kórónaveirunnar og aflýst brottförum skipa sinna frá kínverskum höfnum sem áttu að sigla í næstu viku. MSC Cruises hefur gripið til sömu aðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert