Staðfest tilvik í öllum héruðum Kína

Kórónasmit hafa verið staðfest í öllum héruðum Kína en það nýjasta er í Tíbet. Alls eru 7.711 staðfest tilvik og 170 látnir. Kórónaveiran er einnig komin til 16 annarra ríkja svo vitað sé.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) mun funda í dag um hvort lýsa eigi yfir neyðarástandi á heimsvísu. „Undanfarna daga hefur framgangur veirunnar, sérstaklega í sumum ríkjum, sérstaklega smit milli einstaklinga, valdið okkur áhyggjum,“ segir framkvæmdastjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus.

Kínversk stjórnvöld tilkynntu í dag að öllum knattspyrnuleikjum í úrvalsdeildinni í knattspyrnu yrði aflýst en hún átti að hefjast 22. febrúar. Stuttu áður hafði verið tilkynnt um að hætt væri við heimsmeistaramótið í innanhússíþróttum sem átti að halda í borginni Nanjing í mars. Er mótinu frestað þangað til á næsta ári samkvæmt ráðleggingum frá WHO. 

Í gær var tilkynnt að undankeppnum fyrir Vetrarólympíuleikana í Peking 2022 yrði frestað vegna veirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert