Kórónaveirusmit staðfest í Svíþjóð

Kona sem búsett er í sænsku borginni Jönköping hefur greinst …
Kona sem búsett er í sænsku borginni Jönköping hefur greinst með kórónaveiruna og er það fyrsta staðfesta tilfellið í Svíþjóð. Mynd úr safni. Ljósmynd/Pixabay

Heilbrigðisyfirvöld í Jönköping og Sóttvarnastofnunin í Svíþjóð hafa staðfest að kona hafi greinst með kórónaveiruna, sem fyrst greindist í kínversku borginni Wuhan. 

Konan var nýlega á ferðalagi í Kína og er nú í einangrun á háskólasjúkrahúsinu í Ryhov í Jönköping. 

Hún fann ekki fyrir einkennum fyrr en nokkrum dögum eftir að hún kom heim, en vika er síðan hún kom frá Kína. Hún byrjaði að hósta nokkrum dögum síðar og leitaði til heilsugæslunnar þar sem sýni var tekið og reyndist það jákvætt. Stofnunin hefur tekið um 20 sýni vegna veirunnar og eitt reyndist jákvætt. 

Konan er ekki alvarlega veik, að því er segir í tilkynningu Sóttvarnastofnunarinnar. Þar er einnig tekið fram að lítil hætta er talin á því að veitan smitist manna á milli í Svíþjóð. 

Tilkynnt hefur verið um 213 dauðsföll af völdum kórónaveirunnar, öll í Kína. 9.776 eru smitaðir en 187 hafa náð sér að fullu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert