Mikið áfall fyrir demókrata

Hvíta húsið í Washington.
Hvíta húsið í Washington. AFP

Öldungadeildarþingmaður repúblikana, Lamar Alexander, frá Tennessee, hefur að öllum líkindum tryggt að ákæran á hendur forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, nær ekki fram að ganga með því að lýsa því yfir að hann myndi segja nei við atkvæðagreiðslu um að kalla til fleiri vitni. Er talið að málinu gegn Trump ljúki þegar í dag með sýknu.

Til þess að kalla til fleiri vitni að málinu þarf fjögur atkvæði repúblikana í öldungadeildinni og Alexander hafði verið talinn einn af örfáum sem mögulega gætu greitt atkvæði með tillögunni. 

Lamar Alexander ætlar að segja nei við atkvæðagreiðsluna.
Lamar Alexander ætlar að segja nei við atkvæðagreiðsluna. AFP

Þingmaður repúblikana frá Maine, Susan Collins, hefur sagt að hún muni styðja tillöguna og þingmaður flokksins í Utah, Mitt Romney, hefur sagt að það sé líklegt. Lisa Murkowski sem er þingmaður repúblikana frá Alaska ætlar að greina frá ákvörðun sinni í dag. Repúblikanar eru með 53 sæti í öldungadeildinni en demókratar 47 og því þarf fjögur atkvæði repúblikana til að tillaga demókrata um að fleiri verði látnir bera vitni nái fram að ganga. 

Ef tillagan nær ekki fram að ganga getur leiðtogi repúblikana í deildinni, Mitch McConnell, óskað eftir því að atkvæði verði greidd um að sýkna forsetann og það gæti gerst í dag.

Demókratar hafa lagt ríka áherslu á að fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, John Bolton, beri vitni en hann heldur því fram í óútkominni bók að Trump hafi í eigin persónu sagt að hernaðaraðstoð til Úkraínu yrði ekki veitt nema stjórnvöld þar í landi hæfu rannsókn á andstæðingi hans innan Demókrataflokksins Joe Biden.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, á kosningafundi í Iowa í gærkvöldi.
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, á kosningafundi í Iowa í gærkvöldi. AFP

Meiri­hluti þing­manna í full­trúa­deild Banda­ríkjaþing samþykkti 19. desember að ákæra Don­ald Trump fyr­ir að mis­beita valdi sínu með 230 at­kvæðum gegn 197. 

Demó­krat­ar hafa haft meiri­hluta í full­trúa­deild­inni frá því í janú­ar á þessu ári. Ákær­an er í tveim­ur liðum. Fyrri hlut­inn snýst um að Trump hafi mis­beitt valdi sínu með því að reyna að fá er­lenda rík­is­stjórn til þess að hafa áhrif á for­seta­kosn­ing­arn­ar í Banda­ríkj­un­um á næsta ári. Síðari hlut­inn snýr að því að for­set­inn hafi hindrað full­trúa­deild­ina í að afla upp­lýs­inga um málið og var hann einnig samþykkt­ur með 229 at­kvæðum gegn 198.

Þetta er í þriðja skiptið sem full­trúa­deild­in samþykk­ir ákæru á hend­ur for­seta Banda­ríkj­anna. Þeir for­ver­ar Trump sem ákærðir voru í full­trú­ar­deild­inni eru Andrew John­son árið 1868 og Bill Cl­int­on 1998. Hvor­ug ákær­an var hins veg­ar samþykkt í öld­unga­deild­inni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert