Yfir 250 látnir af völdum veirunnar

Fólk í Hong Kong bíður í biðröð eftir því að …
Fólk í Hong Kong bíður í biðröð eftir því að geta keypt andlitsgrímur. AFP

Yfir 250 manns eru látnir af völdum kórónaveirunnar og næstum 12 þúsund manns eru smitaðir.

Heilbrigðisyfirvöld í Kína greindu frá því að 46 til viðbótar hefðu látist af völdum veirunnar, sem á upptök sín í borginni Wuhan. Allir nema einn létust í kínverska héraðinu Hubei.

Einnig var tilkynnt um að 2.102 til viðbótar hefðu smitast.

Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum hafa 259 látist af völdum veirunnar.

Mun fleiri hafa smitast af kórónaveirunni heldur en SARS-veirunni sem braust út á árunum 2002 til 2003. 774 létust af völdum hennar víðs vegar um heiminn, flestir í Kína eða Hong Kong.

Mikill viðbúnaður er víða um heim vegna kórónaveirunnar og hafa Bandaríkin og Ástralía bæst við lista þeirra þjóða sem hafa ákveðið að setja á ferðabann vegna hennar.

Fólk í Bretlandi, Rússlandi og Svíþjóð hefur m.a. smitast af veirunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert