Kínverjar loka annarri borg

Borginni Wenzhou hefur nú verið lokað vegna kórónaveirunnar.
Borginni Wenzhou hefur nú verið lokað vegna kórónaveirunnar. AFP

Borginni Wenzhou í austurhluta Kína hefur verið lokað vegna kórónaveirunnar sem hefur nú banað 304, en tilkynnt var um fyrsta dauðsfallið vegna veirunnar utan Kína fyrr í dag.

Athygli vekur að borgin Wenzhou er í um 800 kílómetra fjarlægð frá stórborginni Wuhan í Hubei-héraði, en þangað á kórónaveiran upptök sín að rekja. Hefur reynst erfitt að halda aftur af útbreiðslu veirunnar en nýjustu tölur um fjölda smitaðra segja þá vera 14.500 og hafa smit fundist í alls 24 löndum. 

Tíu Danir á leið frá Hubei

Flestir sem hafa greinst með kórónaveiruna utan Kína hafa verið nýkomnir frá Wuhan og leggja því margir sem þar eru ekki búsettir kapp á að komast þaðan. 

Sem dæmi er sagt frá því á vef danska ríkisútvarpsins að von sé á tíu Dönum til Hróarskeldu frá Hubei-héraði í kvöld. Er um að ræða tíu einstaklinga, bæði danska ríkisborgara og Kínverja með varanlegt dvalarleyfi í Danmörku, sem óskuðu eftir hjálp við að yfirgefa héraðið.

Fyrir helgi var flogið með fjóra Dani frá frá Hubei til Danmerkur og lentu þeir á flugvellinum í Hróarskeldu á föstudag. Enginn þeirra sýndi merki um smit. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert