G7 ríkin munu ræða sameiginleg og samræmd viðbrögð við kórónaveirunni á næstu dögum, en þetta staðfesti Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýslands, í samtali við AFP-fréttastofuna. Hann sagði það skynsamlegra að samræma aðgerðir í stað þess að löndin væru með mismunandi aðgerðir og viðbrögð vegna veirunnar.
Heilbrigðisráðherrar landanna sjö; Þýskalands, Kanada, Frakklands, Ítalíu, Japans, Bandaríkjanna og Bretlands munu því funda símleiðis um næstu skref aðgerða.
Í dag var borginni Wenzhou í austurhluta Kína lokað vegna veirunnar, en hún er í um 800 kílómetra fjarlægð frá borginni Wuhan sem veiran á upptök sín að rekja til. Var það gert í kjölfar þess að tilkynnt var um fyrsta dauðsfallið vegna veirunnar utan Kína. Um var ræða kínverskan karlmann frá Wuhan, en hann lést á Filippseyjum.
Yfirvöld í Bandaríkjunum, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Ísrael hafa gripið til þess að banna erlendum ríkisborgurum sem hafa verið í Kína nýlega að koma inn í löndin.
Að minnsta kosti 14 þúsund manns hafa smitast af veirunni og yfir 300 látist. Smit hafa greinst í 24 löndum, þar á meðal Bretlandi, Rússlandi og Svíþjóð.